Gott til endurvinnsluDagblöð, tímarit og auglýsingapóstur eru vörur sem hafa að jafnaði stutta viðdvöl á heimilum okkar. Þó vilja fæstir vera án þeirra. Prentefni, sem berst inn á heimili landsmanna, hefur aukist talsvert á undanförnum árum. Fjölmörg sveitarfélög hafa boðið íbúum að skila dagblöðum og öðru prentefni í flokkunargáma. Landsmenn hafa tekið þessari þjónustu vel og skil verið góð.

Um síðustu áramót kom í ljós að hlutfall þess sem er skilað minnkar og sífellt meira af prentefni er urðað með almennu sorpi. Forráðamenn útgáfufyrirtækja, auglýsingastofa og prentsmiðja hafa áhyggjur af þessari þróun og vilja leggja sitt af mörkum til að snúa henni við. Það er vænleg leið til árangurs að minna fólk á að flokka og skila prentefni með sérstöku merki.

Prentað efni er gott til endurvinnslu
Samtök iðnaðarins, SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu og útgefendur dagblaða og tímarita, prentfyrirtæki og verslunarkeðjur hafa hleypt af stokkunum kynningarátaki um flokkun og endurvinnslu dagblaða, tímarita og auglýsingaefnis.
Merki átaksins með áletruninni ,,Gott til endurvinnslu" verður á prentefni sem borið er í hús til að minna viðtakendur á að flokka og skila blöðunum til endurvinnslu að lestri loknum í stað þess að farga þeim með almennu sorpi. Allir sem gefa út dreifipóst eru hvattir til að nota merkið sér að kostnaðarlausu. Áhugasamir geta einnig fengið aðgang að kynningarefni til að birta sér að kostnaðarlausu.

Gerum gott úr þessu - Upplýsingar og staðreyndir

Dagblöð, tímarit og auglýsingapóstur eru vörur sem hafa að jafnaði stutta viðdvöl á heimilum okkar. Þó vilja fæstir vera án þeirra. Prentefni, sem berst inn á heimili landsmanna, hefur aukist talsvert á undaförnum árum. Að sama skapi hefur aukist magnið sem sett er í gáma fyrir flokkaðan dagblaða- og tímaritaúrgang. Nú er svo komið að tæplega helmingur af prentefni, sem borið er í hús, skilar sér til endurvinnslu en betur má ef duga skal því enn er rúmlega helmingur urðaður með öðru sorpi.

Nokkrar góðar ástæður mæla með því að dagblöð séu flokkuð frá öðrum úrgangi og þeim skilað í blaðagáma. Dagblöð og tímarit henta vel í endurvinnslu. Auðvelt er að nota prentuð blöð sem hráefni í nýjar vörur og flokkaður úrgangspappír er seldur á markaði í fjölbreytta framleiðslu. Þetta er hringrás sem auðvelt er að halda gangandi ef við flokkum og skilum. Þeir sem flokka og skila blöðum viðhalda hringrás efnisins, skila hráefninu aftur til framleiðenda sem búa til nýjar vörur úr þeim sem koma til okkar aftur innan fárra vikna og mánaða.

Það er einfalt að flokka

Setja má saman dagblöð, tímarit, auglýsingapóst og prentpappír sem til fellur á heimilum.

Það er einfalt að skila

Merki á gámumVíða um land eru gámar á fjölförnum stöðum fyrir dagblöð, tímarit og auglýsingapóst. Þá er auðvelt að þekkja á merki sem á stendur ,,Dagblöð og tímarit.” Einnig má skila pappírnum til endurvinnslustöðva. Það er mismunandi eftir landsvæðum hvernig flokkun og söfnun er háttað. Sveitarfélög um allt land gefa upplýsingar um hvar söfnunargáma er að finna.

Gámafyrirtæki bjóða endurvinnslutunnu við heimahús og í þær má láta flokkaðan úrgang, m.a. dagblöð og annan pappír. Mörg fyrirtæki hafa ílát fyrir flokkaðan úrgang þar sem dagblöðum, tímaritum og skrifstofupappír er safnað sem hráefni til endurvinnslu.

Það er einfalt að endurvinna

Dagblöðum, tímaritum og auglýsingabæklingum er safnað saman í gáma. Pappírnum er þjappað saman í þar til gerðum pressum í hæfilega stóra bagga. Þeim er svo raðað í gáma sem eru fluttir til Svíþjóðar eða Hollands. Pappírinn er verðmætt hráefni og kemur í staðinn fyrir ný framleiddan pappír í vörur eins og salernispappír og eldhúsrúllur. Þau eru einnig endurnýtt í dagblöð aftur og á þann hátt myndast hringrás og hráefnin eru notuð aftur og aftur.

Hér á landi er unnið að nokkrum verkefnum þar sem pappírsúrgangur kemur við sögu. Á Norðurlandi er verið að undirbúa að taka í notkun jarðgerðarstöðvar og fyrirhugað er að nota dagblöð í jarðgerðina ásamt ýmsum lífrænum úrgangi. Fyrirtækið Grænar lausnir við Mývatn hyggst nú í haust hefja framleiðslu á vörubrettum úr pappír og pappa. Tilraunir sýna að dagblöð henta ágætlega sem hráefni í vörubretti. Ef svo fer fram sem horfir munu íslensk dagblöð öðlast fjölbreytt framhaldslíf.

Kaffikanna og blaðastafliÞað er einfalt að gera betur

Árið 2005 var safnað um 8.000 tonnum af dagblöðum, tímaritum og auglýsingapósti og endurunnið, skv. upplýsingum frá Umhverfisstofnun. Árið 2006 var skilað um 9.000 tonnum til endurvinnslu. Á höfuðborgarsvæðinu hefur verið skoðað hversu stórum hluta af prentefni er skilað. Áætlað er að skilahlutfallið nemi um og yfir 40%. Þegar rýnt er í sorptunnur borgarbúa má búast við að um 27% af sorpinu séu dagblöð. Hér gefst því tækifæri til að gera betur. Aukin skil á dagblöðum, tímaritum og auglýsingapósti minnka kostnað við sorphirðu, gefa hráefninu annað líf og skila betra umhverfi.

Það er einfalt að skila árangri

Það er betra fyrir umhverfið að endurvinna pappír en urða hann. Ef borin eru saman umhverfisáhrif af lífsferli endurunnins pappírs og ný s pappírs kemur sá endurunni betur út. Mestu munar þar um minni losun gróðurhúsalofttegunda við endurvinnslu en frumvinnslu. Til framleiðslu á nýjum pappír þarf trjávið sem er fluttur langar leiðir og framleiðslan er orkufrek. Auk þess þarf talsvert land undir urðun og því minna sem er urðað því minna svæði þarf að taka frá í því skyni.

Auðvelt er að endurvinna pappír og hann er eftirsótt hráefni á mörkuðum. Ágætt verð fæst fyrir vel flokkaðan pappír. Þrátt fyrir aukna fyrirhöfn við að safna pappírnum í sérstaka gáma og senda hann utan til endurvinnslu er það samt ódýrara en að urða pappírinn.

Frétt af heimasíðu Samtak iðnaðarins - www.si.is

Sjá kynningarsíðu um merkið og notkun þess.
Merkið (lógó) í hágæða upplausn.

Svansmerkt prentverk er framleitt eins umhverfisvænt og hægt er að koma við. Svansmerkt prentefni kemur frá Svansmerktum prentsmiðjum eins og t.d. Hjá GuðjónÓ sem er eina Svansmerkta prentsmiðjan á Íslandi. Prentsmiðja Morgunblaðsins hefur Svansmerkingu í prentun ákveðins hluta framleiðslu sinnar t.d. „kálfa“ eða prentunar á 60 gramma dagblaðapappír.

Birt:
Dec. 4, 2007
Tilvitnun:
Samtök iðnaðarins „Gott til endurvinnslu“, Náttúran.is: Dec. 4, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/12/04/gott-til-endurvinnslu/ [Skoðað:Aug. 8, 2020]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: