Mikill vöxtur er nú í sölu lífrænna og umhverfisvottaðra vara á heimsvísu. Það er ekki bara á Íslandi sem að heilsuvörurverslanir- og matsölustaðir spretta upp og ná fljótt miklum vinsældum. Hraði nútímans kallar á andsvar í meðvitaðri lifnaðarháttum, þó ekki sé nema að fá sér hollan hádegisverð á flottum heilsu-matstað.

Á höfuðborgarsvæðinu er úrvalið orðið mjög fjölbreytt. Staðir eins og Á grænum kosti, Á næstu grösum, Maður lifandi, Garðurinn, Hljómalind, Icelandic Fish & chips o.fl. hafa áunnið sér tryggan hóp viðskiptavina. Auk þess hafa flest veitingahús tekið upp á að bjóða heibrigða rétti, jafnvel harðsvíruðustu skyndibitastaðir geta nú ekki verið þekktir fyrir annað en að bjóða upp á eitthvað hollt og gott.

Sem dæmi um vöxt í lífræna geiranum á heimsvísu má nefna að fyrirtækið ONE group - Organic & Natural Enterprise Group Pty Ltd. auglýsir nú eftir fjárfestum á heimsmarkaði. Samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins er aukning um 2500% á milli ára og í sífelldum vexti. Fyrirtækið framleiðir lífrænar vörur undir vörumerkjunum Miessence, MiVitality og MiEnvironment. Vörur fyrirtækisins eru lífrænt vottaðar af ACO (Australian Certified Organic) og landbúnaðarstofnun Bandaríkjanna (USDA). Sjá kynningu.

Ljósmynd: Einar Bergmundur. 

Birt:
July 18, 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Vöxtur í lífræna geiranum“, Náttúran.is: July 18, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/07/18/vxtur-lfrna-geiranum/ [Skoðað:Oct. 7, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: July 19, 2007

Messages: