Fullt var út úr dyrum á tónleikum gegn virkjunarstefnunni „Ertu að verða náttúrulaus?“ í Laugardalshöllinni í gærkveldi. Margir mættu snemma enda var mikið um dýrðir í anddyri hallarinnar fyrir tónleikana þar sem náttúruverndarsamtök og hópar höfðu sett upp kynningarbása og útbreyddu hver á sinn hátt boðskapinn um að nú væri komið nóg af vitleysunni. Mikill hugur var í fólki og almenn hátíðarstemnig lá í loftinu.

Þegar að tónleikarnir hófust var höllin orðin troðfull af prúðu fólki á öllum aldri sem biðu í ofvæni eftir að heyra í stjörnum sínum og upplifa eitthvað alveg sérstakt. Fyrstur var KK, síðan steig Björk fram ásamt Zeenu Parkins hörpuleikara og heillaði áhorfendur, síðan kom hver hljómsveitin á fætur annari: Múm, Sigur Rós, Magga Stína og hljómsveit, Rass, Damien Rice og Lisa Hannigan, Mugison, Hjálmar, Ghostigital og Damon Albarn, Ham og lauk dagskránni síðan um tólfleitið með Bubba og Egó.

Milli atriða voru sýndar skyggnur á tjöldum sitt hvoru megin við sviðið sem var þaulhugsaður áróður gegn virkjanastefnunni, mjög vel unnin listaverk í formi ljósmynda og grafískra skilaboða sem voru bæði skemmtileg og flott auk þess að vera skuggalega sönn. Skipuleggjendur tónleikanna eiga heiður skilið fyrir frábært starf og listræni þátturinn var engan veginn einskorðaður við flutta tónlist heldur varð til ein allsherjar seremónía með eitt takmark þ.e. að syngja lofsöng stórkostlegri náttúru landsins og blása í lúðra til sameiningar um að samþykkja ekki eyðileggingu náttúruauðæva okkar, á neinu verði. Sjá skot frá tónleikunum og innan fárra daga tónleikana alla!

Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir

Birt:
Jan. 8, 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúran lofuð í höllinni!“, Náttúran.is: Jan. 8, 2006 URL: http://natturan.is/d/2007/03/22/nattverndartonl/ [Skoðað:Oct. 7, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 22, 2007
breytt: May 4, 2007

Messages: