Maðurinn sem leggur sig allan fram við að tína rusl úr görðum í miðborginni heitir Grímur Þorkell Jónasson og á hann í dag, 28. ágúst 2009, þrjátíu ára starfsafmæli hjá Garðyrkju Reykjavíkur.

Grímur er gjarnan með ruslatínustöng við hönd og svartan ruslapoka. Þeir sem á annað borð fara í miðborgina eru líklegir til að hafa einhvern tíma komið auga á Grím því hann starfar við að bæta ásýnd borgarinnar með því að tína rusl í Kvosinni, Hjómskálagarðinum, Lþðveldisgarðinum, Mæðragarðinum, Fótgetagarðinum, Einarsgarði og á Miklatúni, Arnarhól, Austurvelli og víðar.

„Ég man greinilega eftir fyrsta vinnudeginum mínum 28. ágúst 1979,“ segir Grímur, „við höfðum bækistöð á Miklatúni og héldum í Safamýri til að þekja þar næstu tvær vikurnar. Ég hef starfað með mörgum en er nú einn eftir að þeim sem unnu hér árið 1979.“

Hann segir starfið hafa verið ánægjulegt og honum jafnan liðið vel í vinnunni. Ef hann beri saman veðurfar í borginni milli þessara þrjátíu ára þá er greinilega snjóléttara að vetri til hin síðari ár. Þá minnist hann þess sérstaklega þegar garðyrkjan vann að uppsetningu útitaflsins við Lækjargötu árið 1981.

Grímur bætir við að hann hafi reyndar byrjað enn fyrr hjá borginni því hann starfaði á sumrin frá 1976 í hreinsunardeildinni. Nú er hann hjá Skrúðgörðum Reykjavíkur er með verkbækistöð í Laugardalnum.

Mynd: Grímur að störfum. Ljósmynd: Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar.

Birt:
Aug. 28, 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Maðurinn á bak við græna garða í miðborginni“, Náttúran.is: Aug. 28, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/08/28/maourinn-bak-vio-graena-garoa-i-mioborginni/ [Skoðað:July 3, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: