Endingarnar „stör, grös, finningur, sef, gresi, laukur, puntur, fax, hveiti, reyr, toppa, gras, hæra, skúfur skegg og nál“, eru seinni nafnhlutar hinna ýmsu grasategunda sem vaxa hér á landi. Um þessar mundir eru grösin í sínum árlega fjölgunarham og tún og móar fá á sig litslykju af ríkjandi fræhulstrum á svæðinu. Litirnir eru fjölbreyttir og ægifagrir og leggjast yfir græna litinn með tónum allt frá okkurgulum, fjólubláum, bláum, bleikum, rauðum og gráum til hvítra, t.d. af klófífu [Eriophorum angustifolium].

Í bókinni Íslenska plöntuhandbókin eftir Hörð Kristinsson er fjallað um 92 tegundir af grösum. Ljósmyndir, textar og frábærar pennateikningar Sigurðar Vals Sigurðsson ljá bókinni einstakt greiningargildi. Flestar ljósmyndir í bókinni eru eftir Hörð Kristinsson sjálfan, en Hörður er grasafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands og á heiðurinn af verkum eins og floraislands.is og átti stóran þátt í gerð Plöntuvefsjá NÍ. Bókin „Íslenska plöntuhandbókin“ er byggð upp þannig, að fljótlegt og auðvelt er að greina tegundir plantna eftir lit, og greiningarlyklar eru auðskiljanlegir. Bókin var fyrst gefin út af Mál og menningu árið 1986 og hefur verið margprentuð síðan og hefur einnig verið gefin út á á ensku, þýsku og frönsku.
Ljósmyndin er trúlega* af Axhæru [Luzula spicata] í bland við Lógresi [Trisetum spicatum].

Myndin er tekin í mýri undir Ingólfsfjalli í Ölfusi þ. 30. 07. 2006.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
-
*Ath! Greining þarfnast staðfestingar grasafræðings, en Hörður Kristinssson lítur að jafnaði yfir greiningu hér til að ganga úr skugga um að farið sé með rétt mál.


Birt:
Aug. 10, 2013
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Litir frjóseminnar“, Náttúran.is: Aug. 10, 2013 URL: http://natturan.is/d/2007/03/20/litir_frjos/ [Skoðað:Sept. 27, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 20, 2007
breytt: June 22, 2013

Messages: