Hópur fólks var á áhorfendapöllum í Ráðhúsinu nú síðdegis þegar tillaga Ólafs F. Magnússonar borgarfulltrúa F-listans um að falla alfarið frá Norðlingaölduveitu var tekin fyrir. Tillagan var samþykkt af öllum nema borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem sátu hjá við atkvæðagreiðsluna þrátt fyrir að oddviti flokksins hefði í ræðu sinni lagt til að falla ætti frá framkvæmdunum. Sjálfstæðismenn létu jafnframt bóka að þeir hvettu Landsvirkjun til að leita annara kosta til að koma til móts við stórkaupendur á raforku með virkjun gufuafls eða vatnsafls í stað þess að ráðast í framkvæmdir við Norðlingaölduveitu og að úrskurður setts umhverfisráðherra Jóns Kristjánssonar hafi verið ólögmætur. Reykjavíkurborg á 45% í Landsvirkjun svo vægi niðurstöðu þessarar hlýtur að teljast mikilvægur sigur.
Borgarstjóri lýsti afstöðu sinni á mjög afgerandi hátt gegn Norðlingaölduveitu sem stakk mjög í stúf við ræðu kvenforvera hennar í borgarstjórastóli fyrir þremur árum síðan. Þá var sorgardagur en nú er gleðidagur fyrir alla þá sem láta sig náttúruvernd einhverju varða.
Þegar að ljóst var hverjar niðurstöður myndu verða var klappað á áhorfendapöllum og mikil og einlæg gleði lá í loftinu þar sem margt af því fólki sem þar sat hefur tekið virkan þátt í baráttunni fyrir verndun Þjórsárvera og náttúru Íslands um áraraðir. Loks er þessi vinna að skila árangri og svo virðist sem hin stjórnandi öfl séu að vakna.

Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir

Birt:
Jan. 17, 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „45% eignaraðila Landsvirkjunar vilja falla frá Norðlingaölduveitu!“, Náttúran.is: Jan. 17, 2006 URL: http://natturan.is/d/2007/03/21/eignadilar_landvi/ [Skoðað:Oct. 4, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 21, 2007
breytt: May 4, 2007

Messages: