Gríðarleg vindorka er á Íslandi og ekki er ólíklegt að virkjun hennar sé raunhæfur og hagkvæmur kostur að einhverju marki hér á landi. Sjávarvirkjun gæti reynst hagkvæmur kostur á fáeinum stöðum á Íslandi, ekki síst í nágrenni Vestfjarða, og umtalsverð efnahagsleg tækifæri gætu verið fólgin í þvví að Ísland marki sér þá stefnu að vera leiðandi í þróun sjávarvirkjana.

Ofangreindar ályktanir eru meðal niðurstaðna í skýrslu sem Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og MBA, hefur tekið saman að frumkvæði Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðar- og utanríkisráðherra. Hún nefnist „Virkjun vindorku og sjávarorku á Íslandi – Tækifæri til að efla íslennskt efnahagslíf og auka fjölbreytni á orkumarkaði?" Höfundur leggur til að ráðist verði í vindmælingar á nokkrum stöðum á landinu í meiri hæð en gert hefur verið til þessa, þeas í 50-80 metrum. Nefnir hann sérstaklega Gufuskála og svæði á Suðurlandsundirlendinu í þessu sambandi. Ekki sé hægt að útiloka að rafmagn frá vindorku hér gæti keppt við verð frá hefðbundnum virkjunum. Til greina komi t.d. að virkja vindorku í talsvert stórum stíl til að spara miðlunarlón, að reisa litlar vindrafstöðvar til þess að minnka þörf á aðkeyptu rafmagni og losna undan dreifingarkostnaði og að flytja út rafmagn frá stórum vindorkustöðvum um sæstreng verði slík strenglagning efnahagslega hagkvæm í framtíðinni.

Í skýrslunni er m.a. fjallað um virkjun hafstrauma, svo sem sjávarfalla- og hringiða, svo og öldu- og seltuvirkjanir. Ketill leggur til að íslensk stjórnvöld fylgist vel með framýróun sjávarvirkjana og skoði nánar virkjanamöguleika af þessu tagi, sérstaklega uppsetningu sjávarfallavirkjunar við Breiðafjörð og möguleika á sjávarvirkjun á Vestfjörðum og/eða í Hrútafirði. Þá stingur hann upp á því að stjórnvöld íhugi af mikilli alvöru þann möguleika að Ísland verði í farabroddi og setji sér metnaðarfull en raunhæf markmið til að svo megi verða.

Skýrsla Ketils Sigurjónssonar

Birt:
April 28, 2009
Tilvitnun:
Ketill Sigurjónsson „Tækifæri í vind og sjávarorku“, Náttúran.is: April 28, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/05/04/taekifaeri-i-vind-og-sjavarorku/ [Skoðað:Dec. 3, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: May 4, 2009

Messages: