Í sumar hefur Norrænn eldhúsgarður vaxið upp við Norræna húsið. Garðurinn er matjurtagarður Norræna hússins og veitingahússins Dill Restaurant. Hann hefur sömuleiðis það hlutverk að lýsa nánum tengslum jurtanna, villtra og ræktaðra, og norrænnar matarmenningar. Uppruni og saga nytjajurta gegna mikilvægu hlutverki í Nýjum norrænum mat og í því hvernig við skynjum hvað er norrænt. Samhliða garðinum hefur verið starfrækt gróður-kaffi-húsið, Kaffi Hvönn.
 
Nú nálgast haustið og mikilvægt að unnið verði úr uppskerunni og hún borin á borð. Að því tilefni boðar Norræna húsið til uppskeruhátíðar sunnudaginn 30. ágúst. Nákvæmari dagskrá verður tilkynnt síðar, en á dagskránni verður m.a. bragðprufur af uppskerunni, t.d. kartöflur, matreiddar af listakokkinum Gunnari Karli á Dill restaurant. Hildur Hákonardóttir, höfundar bókanna “Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins” og “Blálandsdrottningin og fólkið sem ræktaði kartöflurnar” kemur og spjallar um garðyrkjugleði. Auk þess verður skiptimarkaður þar sem tækifæri verður til að koma og skiptast á eigin garðframleiðslu eða hlutum í tengslum við garðyrkju.
 
Ein helsta aðferð sem notuð hefur verið á Norðurlöndum til þess að geyma ber og grænmeti yfir langan og dimman vetrartímann er sultugerð. Bæði sæt og súr sulta hefur verið framleidd um alla norðurálfu um langan aldur. Í tengslum við uppskeruhátíð Norræna hússins verður sultukeppni sem er opin öllum. Keppt verður í tveimur sultutegundum, súrri og sætri. Hver keppandi getur skilað inn eins mörgum sultutegundum og hann vill. Skila skal sultunni í Norræna húsið í síðasta lagi kl. 12:00 þann 30. ágúst næstkomandi í íláti merktu nafni, heimilisfangi og/eða netfangi keppandans á botninn.

Myndin er af gróðurhúsi Norræna hússins, tekin úr matjurtargarðinum. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóóttir.

Birt:
Aug. 19, 2009
Höfundur:
Norræna húsið
Uppruni:
Norræna húsið
Tilvitnun:
Norræna húsið „Uppskeruhátíð, skiptimarkaður og sultukeppni í Norræna húsinu“, Náttúran.is: Aug. 19, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/08/19/uppskeruhatio-skiptimarkaour-og-sultukeppni-i-norr/ [Skoðað:Aug. 12, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: