Græna netið leitar að raforku fyrir 360 þúsund tonna álver á Suðurnesjum – fundur á Sólon laugardaginn 24. október kl. 11:00. Þeir Sigmundur Einarsson jarðfræðingur, Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi og Ágúst Hafberg framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og samskipta hjá Norðuráli eru málshefjendur á fundi Græna netsins á laugardag um orkumál, þar sem leitað verður svara við áleitnum spurningum um orku fyrir áformuð álver á Suðvesturhorninu og fyrir norðan.

Fundurinn er haldinn á Sólon við Bankastræti í Reykjavík og hefst kl. 11 árdegis. Fundarstjóri verður Sigrún Pálsdóttir.

Fullgert á álver Norðuráls við Helguvík að geta framleitt 360 þúsund tonn áls á ári, heldur meira en ver Fjarðaáls í Reyðarfirði. Til þessa þarf 630 þúsund megavött (Kárahnjúkavirkjun: 690 MW), og er ýmsum spurningum ósvarað um þá orkuöflun. Þeir Sigmundur og Dofri eru meðal þeirra sem hafa efast um orkuöflun til framkvæmdanna en Norðurál á hinn bóginn birt á heimasíðu sinni yfirlit um ýmsa orkukosti sem til greina komi. Svipaðar spurningar eru uppi um áformaðar álversframkvæmdir við Húsavík.
Áformað Helguvíkurálver er daglega í fréttum vegna þessara orkumála, suðvesturlínu og úrskurðar umhverfisráðherra, stöðugleikasamningsins, fjáröflunarvanda og atvinnustefnu. Má því búast við fjörugum fundi á Sólon.

Því er við að bæta að Mörður Árnason, formaður Græna netsins, hefur á bloggsíðu sinni boðið Björgvini G. Sigurðssyni alþingismanni sérstaklega á fundinn vegna stuðningsyfirlýsingar Björgvins við tillögu stjórnarandstæðinga á þingi gegn úrskurði umhverfisráðherra.

Allir velkomnir á Sólon, laugardag kl. 11:00.

Mynd: Gufustrókar úr tilraunaborholum á Hellisheiði. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Oct. 21, 2009
Höfundur:
Græna netið
Tilvitnun:
Græna netið „Hvar er orkan fyrir Helguvík?“, Náttúran.is: Oct. 21, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/10/21/hvar-er-orkan-fyrir-helguvik/ [Skoðað:Dec. 2, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: