Loks hefur forsætisráðherra látið til sín taka í umræðu um loftslagsbreytingar í stefnuræðu (sjá að neðan). Á þann hátt styður Geir H. Haarde utanríkisráðherra, Inigjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem fjallaði ítarlega um loftslagsbreytingar í ræðu sinni í gær. Á hinn bóginn er Sjálfstæðisflokkurinn klofinn í loftslagsmálum. Björn Bjarnason telur loftslagsbreytingar ekki vandamál að öðru leyti en því að hlýnun á norðurhjara muni kalla á nýjar aðstæður (tækifæri) í varnarmálum og auðlindanýtingu. Passus forsætisráðherra um norðurslóðir helgast vafalaust af ný legri ræðu dómsmálaráðherra á ráðstefnu um öryggi og auðlindir norðurslóða í Tromsö. Þar sagði hann:

“Climate changes will lead to further exploitation of natural resources in that area and increased arctic shipping for that reason, not to mention the impact of the potential opening of the North East passage to the Pacific Ocean. All of this will have great effect on the geopolitical position of Iceland.”


Geir er og varfærin og segir „... vísindalega vissu um hlýnun lofthjúps jarðar af mannavöldum hafa aukist.” Ingibjörg Sólrún segir loftslagsbreytingar staðreynd. En hvað sem þessu líður hefur umræða um  loftslagsbreytingar hefur tekið stórt skref fram á við með yfirlýsingu forsætisráðherra í gær. Sjálfstæðisflokkurinn er nú með í umræðunni þó svo að sumir þar á bæ telji henta að halda áfram að menga andrúmsloftið með nýtingu jarðefnaeldsneyta á norðurhjara.

Bestu kveðjur, Árni Finnsson.

Úr stefnuræðu Geirs H. Haarde: 

Herra forseti.
Ný skýrsla Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem kynnt var á þessu ári, segir vísindalega vissu um hlýnun lofthjúps jarðar af mannavöldum hafa aukist. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem vilja hefja nú þegar víðtækar viðræður um nýtt hnattrænt sam komulag sem taki við eftir gildistíma Kýótó-bókunarinnar árið 2012. Ríkisstjórnin hyggst efla starf að loftslagsmálum á næst unni og gera áætlun um hvernig Ísland getur mætt væntanlegum framtíðarskuld bind ingum á sem bestan og hagkvæmastan hátt. Í því samhengi má ekki gleyma því að í lausninni á loftslagsvand an um eru fólgin mikil tækifæri í nýsköpun. Íslensk þekking á nýtingu jarðhita og á fleiri sviðum loftslags vænnar tækni er gulls ígildi í heimi sem enn er að mestu knúinn með kolum og olíu.
 [...]

Huga þarf að vaxandi mikilvægi norðurslóða í utanríkismálum samfara aukinni sókn í auðlindir norðursins og vaxandi umferð í tengslum við þær. Við þurfum að nýta okkur þau tækifæri sem skapast við opnun Norður-Íshafsins í kjölfar hlýnandi loftslags og nýrrar siglingatækni sem auðveldar siglingar á hafíssvæðum. Þá skiptir miklu að þau ríki sem eiga beinna hagsmuna að gæta nái samningum um sjálfbæra nýtingu auðlinda og öryggi samgangna á norðurslóðum. Ísland var á meðal brautryðjendaríkja í hafréttarmálum og hefur lagt áherslu á að ná samningum við nágranna ríki um sanngjarna skiptingu hafsvæða á Norður-Atlantshafi. Í þeim anda verður lögð áhersla á að fá viðunandi niðurstöðu í viðræður um yfirráð yfir svonefndu Hatton-Rockall-svæði.
Birt:
Oct. 3, 2007
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Stórt skref framávið - Stefnuræða forsætisráðherra“, Náttúran.is: Oct. 3, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/10/03/strt-skref-framvi-stefnur-forstisrherra/ [Skoðað:Feb. 5, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: