Í grein frá unnendum Þjórsár segir:

Sumarið er liðið og enn streymir Þjórsá eftir farvegi sínum frá Búrfelli til hafs, þótt valdamenn stefni einbeittir að því að breyta náttúrunni okkar í peninga – og ekki handa heimamönnum eða almenningi. Fjármagnið skal renna til stórfyrirtækja og auðmanna sem eru þessa dagana að vinna hratt að því marki að ná til sín auðlindum þjóðarinnar.

Hluta af því geta Skeiðamenn, Gnúpverjar og Flóamenn nú komið í veg fyrir, með því að stöðva áformin um virkjanir í Þjórsá. Til þess er mikill vilji og vaxandi. Þeir sveitungar okkar sem ekki eiga jarðir við Þjórsá, standa í þakkarskuld við landeigendur sem hafa þurft að þola látlausan þrýsting frá sendiboðum Landsvirkjunar síðastliðin sex ár, án þess að gefa eftir og fallast á afarkosti. Þeir hefðu þurft að fá miklu meiri stuðning frá kjörnum fulltrúum, bæði í sveitar- og landsstjórn. Spyrja má hvort þeir hafa í raun fengið aðstoð við að verja sína hagsmuni, eða hvort valdamenn hafi svikist aftan að þeim? Hvað þegar ríkið færði Landsvirkjun vatnsréttindin í Þjórsá tveimur dögum fyrir kosningarnar í vor. Hvað þegar sveitarstjórn auglýsti skipulag án réttrar kynningar? Og var það í þágu landeiganda að talsmenn sveitarfélagsins gerðu einhliða áróður Landsvirkjunar að sínum og lýstu yfir stuðningi við virkjanirnar án samráðs?

Á liðnu sumri hefur Sól á Suðurlandi aflað upplýsinga sem sýna allt annan veruleika en þann sem ráðamenn hafa haldið fram. Samtökin vita nú að allt tal útsendara Landsvirkjunar um samninga í “góðum farvegi”, var liður í baráttu Landsvirkjunar fyrir því að knýja fram samninga sem skjótast. Sól á Suðurlandi veit líka að sumir landeigendur voru varla virtir viðlits, né gengið til samninga við þá, fyrr en í haust. Og Sól á Suðurlandi komst líka að því að ríkið hefði látið vatnsréttindin frá sér án þess að landeigendum, sveitarstjórn og almenningi væri sagt frá því. Þetta taldi Margrét Frímannsdóttir fyrrverandi þingmaður Samfylkingar vera hneyksli. Sól á Suðurlandi hefur líka komast að því með viðræðum við ráðherra og sveitarstjórnarmenn að rökin fyrir því að virkja eru engin nema þá helst það sé of seint að hætta við!
Samfylkingin, annar ríkisstjórnarflokkurinn, er andvígur virkjunum. Tveir ráðherrar Samfylkingar, Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra hafa eindregið lýst þeirri sömu skoðun og sá þriðji, Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segist hafa mikla samúð með málstað sólarfólks. Í ljós hefur komið að áhættumatið er unnið af Landsvirkjun sjálfri og er því ekki hlutlaust. Það kom líka í ljós að reynt var að þegja í hel skýrslu Páls Einarssonar um jarðskjálftahættu, með því að hafa hana einungis á ensku. Sól á Suðurlandi lét þýða hana og þá fyrst frétti almenningur af sterkum aðvörunum gegn framkvæmdunum. Dofri Hermannsson framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar telur sjálfsagt að gert verði nýtt umhverfismat í ljósi framkominna upplýsinga og einnig vegna þess að í sumar fundust merkilegar fornminjar á virkjanasvæðinu.

Öllum má nú ljóst vera að forsendur hafa breyst frá því að Landsvirkjun fór að undirbúa virkjanirnar og ekki síst nú í sumar. Gjörðir fyrirtækisins annarsstaðar á landinu sýna að mikið vantar á að náttúra, land og vatnsréttindi hafi verið verðmetin af viti eða sanngirni. Það sýna málaferli fyrir austan. Verðmætin vaxa meðan hákarlar raka þeim til sín fyrir lítið fé. Heimamenn við Þjórsá eiga ekki að verða leiksoppar í þeim hildarleik. Landeigendur eiga að fá fullan stuðning, sveitarstjórna, íbúa á svæðinu og almennings í landinu til að staldra við þangað til eðlilegar leikreglur hafa verið settar. Vitað verði hvernig á að nýta orkuna og viðurkennt að til þess þurfi að fórna stórkostlegum verðmætum. Félagar í Sól á Suðurlandi kunna því mjög illa hvernig komið hefur verið fram við alla þolendur þessara áforma. Unnendur Þjórsár standa heilshugar með landeigendum í þeirra erfiðu baráttu. Sól á Suðurlandi heitir stuðningi við landeigendur og lýsir yfir vilja til þess að vinna með þeim að upplýsingaöflun og öllu því sem styrkt gæti þeirra hag í erfiðri stöðu. Sól á Suðurlandi vill ekki að Þjórsá verði virkjuð frekar en orðið er. En síst af öllu vill Sól á Suðurlandi að heimamenn við Þjórsá og landeigendur verði hlunnfarnir af fyrirtækjum sem stinga af með gróðann og skilja sveitirnar eftir í sárum.

Unnendur Þjórsár.

Myndin er tekin á hátíðarstund í mynni þjórsárdals þ. 27.07.2007. Skiltið sýnir áætlað lónshæð. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Oct. 17, 2007
Höfundur:
Unnendur Þjórsár
Tilvitnun:
Unnendur Þjórsár „Stöndum vörð um Þjórsá“, Náttúran.is: Oct. 17, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/10/17/stndum-vr-um-jrs/ [Skoðað:June 17, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: