Föngun og förgun kolefnis vinnur gegn gróðurhúsaárifum án þess að draga þurfi úr kolefnislosandi starfsemi. Því kemur á óvart að Bandaríkjastjórn dragi stuðning sinn við þróunarstarf á þessu sviði til baka.

Þróunarstarf við föngun og förgun kolefnis til að vinna gegn losun gróðurhúsalofttegunda frá kolaknúnum orkuverum varð fyrir miklu áfalli í síðustu viku þegar Bandaríkjastjórn dró til baka stuðning sinn við stærsta verkefni heims á þessu sviði.

FutureGen-verkefnið hófst árið 2003 með samstarfi orkumálaráðuneytis Bandaríkjanna og samfylkingar fyrirtækja úr kola- og orkugeiranum, og var veitt í það 1,8 milljörðum dollara. Verkefnið var talið stærsta rannsóknar- og þróunarverkefni heims á sviði kolefnisföngunar og -förgunar, og var ætlað að fanga koltvísýringsútblástur frá orkuverum og grafa hann neðanjarðar.

Sam Bodman, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, lýsti því hins vegar yfir í síðustu viku að ofvöxtur í kostnaði verkefnisins hefði neytt ríkisstjórnina til að draga fjárstuðning sinn til baka. Bodman sagði að Bush-stjórnin hefði tekið upp nýja nálgun á stuðning sinn við kolefnisföngun og -förgun.

Í stað þess að styrkja byggingu eins miðstýrðs kolavers hyggst ríkisstjórnin nú beina fé til nokkurra orkuvera þar sem verið er að þróa kolefnisförgun. Styrkir fari einungis til þeirra þátta sem lúta að förguninni.

Aðrir aðstandendur FutureGen-verkefnisins hafa mótmælt ákvörðuninni og segja umkvartanir ríkisstjórnarinnar vegna aukins kostnaðar vera fyrirslátt, þar eð boðist hafi verið til að setja þak á kostnaðarþátttöku stjórnarinnar. Þeir hafa jafnframt gefið í skyn að staðarval sé hin raunverulega ástæða, en verkefnið er staðsett í Illinois.

Mikil áhersla er nú um stundirlögð á þróun á sviði kolefnisförgunar, enda hefur verið mælt ákaft með henni bæði í skýrslum Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna og Stern-skýrslunni. Evrópusambandið lýsti yfir stuðningi við byggingu tólf prufuvera fyrir árið 2015 þar sem förgunartækni verði beitt.

Grein og mynd: Viðskiptablaðið. Ljósm: George W. Bush Bandaríkjaforseti (í miðjunni) og orkumálaráðherrann Sam Bodman (t.h.) virða fyrir sér sólarorkustöðina í Albuquerque, glaðir í bragði. Þeir hafa nú afturkallað opinberan stuðning við stærsta verkefni heims á sviði kolefnisförgunar.

Birt:
Feb. 12, 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Kolefnisförgun ekki lengur í náðinni“, Náttúran.is: Feb. 12, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/02/12/kolefnisforgun-ekki-lengur-i-naoinni/ [Skoðað:Sept. 20, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: