Forystumenn átta leiðandi fyrirtækja í jarðhitanýtingu hér á landi skjalfestu í dag þann ásetning sinn að starfa saman að jarðvarmaverkefnum erlendis. Orkuveita Reykjavíkur (OR), sem er eitt stærsta jarðhitafyrirtæki heims,  leiðir samstarfið og aðild að því eiga einnig þrjár stærstu verkfræðistofur landsins – Efla, Mannvit og Verkís – Jarðboranir, Íslenskar orkurannsóknir og arkitektastofurnar T.ark Teiknistofa og Landslag. Markmið samstarfsins er að opna fyrirtækjunum nýjar leiðir til að koma þekkingu sinni á markað því eftirspurn eftir reynslu á öllum sviðum jarðhitanýtingar fer hratt vaxandi um víða veröld.

Samstarfinu hér á landi er komið á í framhaldi af samstarfsyfirlýsingu OR og japanska stórfyrirtækisins  Mitsubishi Heavy Industries (MHI), sem undirrituð var í Tókýó 15. apríl sl. Í samræmi við hana er OR að skapa breiðan vettvang íslenskrar sérþekkingar í jarðhitanýtingu. Sá vettvangur hefur nú tekið á sig mynd og mun frekari þróun hans velta á þeim verkefnum sem aðilarnir kjósa að koma með inn í samstarfið. Í samstarfsyfirlýsingu OR og MHI og yfirlýsingunni sem undirrituð var í dag er reiknað með að frumkvæði að nýjum verkefnum geti komið frá hvaða aðila samstarfsins sem er, sem þá eigi bakland og stuðning í öðrum aðilum samstarfsins við frekari þróun tækifæranna. Í viljayfirlýsingunni felst ekki skuldbinding aðila um slíka þátttöku heldur er skapaður farvegur fyrir formlegt samstarf sem tekin verður afstaða til í hverju tilfelli fyrir sig.

Aðilar viljayfirlýsingarinnar, sem undirrituð var í höfuðstöðvum OR í dag, eru fyrst og fremst að horfa til sölu á sérþekkingu sinni á sviði jarðvarmanýtingar. Hún liggur á mismunandi sviðum; að finna hugsanleg nýtingarsvæði, rannsókn þeirra, mat á umhverfisáhrifum, uppbyggingu virkjana, reksturs þeirra og sölu á afurðum þeirra. Ekki er gert ráð fyrir að fjármögnun hugsanlegra samstarfsverkefna verði í höndum þessara aðila.

Forráðamenn OR áttu í síðasta mánuði fundi með ráðamönnum japanskra banka og þróunarsjóða auk fulltrúa japanskra stjórnvalda um hugsanlega aðkomu að fjármögnun jarðhitaverkefna m.a. í þróunarríkjum. Fram kom á fundunum að íslenskur þekkingarklasi, sem hefði yfir að ráða fremstu sérfræðingum á öllum sviðum jarðvarmanýtingar ásamt japanskri tækniþekkingu, væri eftirsóttur samstarfsaðili.

 

Aðilar viljayfirlýsingarinnar hafa allir tekið þátt í þróun jarðhitanýtingar hér á landi síðustu ár og áratugi, bæði fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og önnur orkufyrirtæki. Öll hafa fyrirtækin komið að uppbyggingu virkjana Orkuveitu Reykjavíkur á Nesjavöllum og/eða á Hellisheiði. Umfangsmesti búnaður beggja virkjana var keyptur af MHI eftir opið útboð. Samstarf OR og MHI nær því yfir 20 ára tímabil. Virkjanirnar tvær þykja um margt til fyrirmyndar í uppbyggingu jarðhitanýtingar og hönnun slíkra mannvirkja. Til marks um það má nefna að um Hengilssvæðið voru ekki flutt færri en 17 erindi á Alþjóðlegu jarðhitaráðstefnunni á Balí, sem er nýafstaðin, og Hellisheiðarvirkjun varð fyrir valinu sem fulltrúi Íslands í sýningu á norrænum arkitektúr, sem nú stendur yfir á Heimssýningunni í Sjanghæ.

Yfirlýsinguna undirrituðu:
Finnur Kristinsson, Landlagi, Sturla F. Birkisson, Jarðborunum, Júlíus Karlsson, Eflu, Eyjólfur Árni Rafnsson, Mannviti, Guðlaugur G. Sverrisson og Hjörleifur B. Kvaran, Orkuveitu Reykjavíkur, Sveinn Ingi Ólafsson, Verkís, Ivon Stefán Cilia, T.ark–Teiknistofunni, Ólafur G. Flóvenz, ÍSOR.

Ljósmynd: Borholdustrókur á Hellisheiði, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
May 25, 2010
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Nýr öflugur samstarfsvettvangur á sviði jarðhitanýtingar“, Náttúran.is: May 25, 2010 URL: http://natturan.is/d/2010/05/25/nyr-oflugur-samstarfsvettvangur-svidi-jardhitany/ [Skoðað:Feb. 5, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: