Auðugari þróunarríki, með Kína í fararbroddi, eru andvíg samkomulaginu sem lagt var fram á loftslagsráðstefnunni í gær og óttast að slíkur samningur yrði til að hefta vöxt þeirra.

Þróunarríkin hafa klofnað í afstöðu sinni til ný s loftslagssamnings sem ræddur er á ráðstefnu í Kaupmannahöfn. Smærri eyríki og fátæk lönd í Afríku, sem eru berskjölduð fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, vilja lagalega bindandi sáttmála með harðari ákvæðum en Kyoto-bókunin.
Þróunarríkin hafa talað einum rómi í aðdraganda Kaupmannahafnarráðstefnunnar og höfnuðu sameiginlega í gær drögum Dana að lokasamkomulagi, sem hafði lekið út.

Þeim drögum var breytt í dag en þau gera ráð fyrir að ákvæði Kyoto gildi áfram að hluta til í nýjum sáttmála.

Eyríki og fátækari lönd Afríku styðja tillöguna og vilja að allt verði gert til að tryggja að meðalhiti í heiminum hækki ekki um meira en eina og hálfa gráðu á celsíus og að uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda verði gerð stöðug við 350 milljónarhluta en ekki 450 milljónarhluta eins og auðugari ríki miða við.

Lönd með hraðvaxandi hagkerfi eins og Indland, Kína og Suður-Afríka eru andvíg þessum tillögum þar sem þetta yrði til að hefta hagvöxt í löndunum.

Birt:
Dec. 10, 2009
Höfundur:
Ríkisútvarpið
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Óeining í Kaupmannahöfn“, Náttúran.is: Dec. 10, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/12/10/oeining-i-kaupmannahofn/ [Skoðað:Jan. 28, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: