Á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands á Hótel Sögu þann 6. apríl síðastliðinn opnaði Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra Plöntuvefsjá NÍ við hátíðlega athöfn. Lovísa Ásbjörnsdóttir er verkefnisstjóri Náttúruvefsjár NÍ en Hörður Kristinsson grasafræðingur með meiru er umsjónarmaður gagnagrunna.
Með plöntuvefsjánni er Náttúrufræðistofnun að taka í sína þjónustu nýjustu tækni í miðlun upplýsinga um netið þannig að notandinn getur nálgast traustar og áreiðanlegar upplýsingar um náttúru Íslands á myndrænan hátt.

Plöntuvefsjáin er fyrsti áfangi í rafrænni miðlun náttúrufarsgagna stofnunarinnar og í henni má finna upplýsingar um háplöntur, mosa, fléttur og sveppi, útbreiðslu þeirra og einnig staðreyndasíður sem gefa ítarlegar upplýsingar um sérhverja plöntutegund með plöntulýsingu, ljósmyndum, röðun tegundar innan flokkunarfræðinnar, upplýsingum um búsvæði og útbreiðslu og fróðleik um skaðsemi og nytjar plöntunnar.

Næsti áfangi er fuglavefsjá sem stefnt er að því að opna fyrir árslok 2006. Jafnframt er hafinn undirbúningur að smádýravefsjá.

Plöntuvefsjáin er styrkt af Upplýsingasamfélaginu “Auðlindir í allra þágu 2004-2007”.
Náttúran ný tur góðs af þeirri stefnu og langtímamarkmiði Náttúrufræðistofnunar Íslands að veita aðgang að gagnasöfnun stofnunarinnar á netinu. Náttúran hefur samið við stofnunina um að fá aðgang að vísindalegum viskubrunnum stofnunarinnar og bætir við bæði menningarlegu og þjóðlegu efni sem og efni af öðrum grunnum víðs vegar að til að gefa sem gleggsta mynd af þeim möguleikum sem búa í meðhöndlun og notkun plantnanna okkar.

Birt:
April 14, 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Plöntuvefsjá“, Náttúran.is: April 14, 2006 URL: http://natturan.is/d/2007/03/21/plontuvefsja/ [Skoðað:Aug. 12, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 21, 2007
breytt: May 4, 2007

Messages: