Villt jarðarber [Fragaria vesca) vaxa hér á landi, einkum á suður- og suðvesturlandi. Garðajarðarber fást hjá garðyrkjustöðvum og auðvelt er að koma plöntunum til hér á landi en þær fjölga sér ört með sprotum sem skríða með jörðu og skjóta rótum. Ekki sþst líður þeim vel í köldum gróðurhúsum.

Jarðarberjajurtin gefur ekki af sér ber fyrsta árið en þeim mun meiri ánægja er að uppskera fyrstu berin, þegar þau koma, á öðru ári. 

Góð leið til að halda fuglum himinsins frá jarðarberjunum er að strengja net yfir vaxtarsvæðið. Það er að segja ef maður vill ekki deila uppskerunni með þeim.

Í grein um ræktun jarðarberja eftir Magnús Óskarsson sem birtist í tímaritinu Frey árið 1997 er jarðarberjaræktun tekin fyrir:

Ræktun garðjarðarberja á sér alllanga sögu á Íslandi. Með nýjum afbrigðum og nýrri ræktunartækni hefur ræktunin smám saman orðið auðveldari

Garðjarðarber á Íslandi
Garðjarðarber eru önnur tegund en smávöxnu, villtu íslensku jarðarberin. Garðjarðarber urðu til fyrir 200-250 árum, þegar tveimur amerískum jarðarberjategundum var æxlað saman í Frakklandi. Það er ekki vitað hvenær fyrst var reynt að rækta garðjarðarber á Íslandi.
Einar Helgason skrifar í Hvannir árið 1926: "Það er alveg á takmörkunum að hin útlendu jarðarber geti þrifist hér á landi, og þau ná ekki þroska á bersvæði fyrr en svo seint á sumri að uppskeran verður sára lítil." Á öðrum áratug aldarinnar virðist lítið vera ræktað af garðjarðarberjum á Íslandi.

Árið 1941 skrifaði Martínus Simson, ljósmyndari á Ísafirði, grein í Garðyrkjuritið og segist hafa ræktað jarðarber þar vestra um tíu ára skeið, með góðum árangri. Hann notaði afbrigðið Deutsch evern og fékk um 200 g af berjum af plöntu, sem verður að teljast mjög góð uppskera, vegna þess að hann notaði ekki gróðurhlífar. Hins vegar lagði Simson áherslu á að skþla plöntunum vel. Í klausu frá ritstjóra Garðyrkjuritsins, sem fylgir greininni, segir að ræktun jarðarberja sé stöðugt að aukast á Íslandi.

Unnsteinn Ólafsson (1939) lagði áherslu á að nota sólreiti, ylreiti eða gróðurhús til að rækta garðjarðarber. Hann stakk upp á því að rækta berin á hillum í gróðurhúsum, aðferð sem á seinni árum hefur rutt sér til rúms.

Sturla Friðriksson (1952) sagði: "Árið 1947 voru fluttar til landsins all margar tegundir af jarðarberjajurtum á vegum Atvinnudeildar Háskólans og tilraunir gerðar með þol þeirra og uppskerumagn. Reyndust tvær tegundir, Deutsche evern og Abundance, bera af hinum og var þeim fjölgað til dreifingar víðsvegar um landið." Það var Áskell Löve sem sá um rannsóknirnar. Frá Atvinnudeildinni og ef til vill fleirum breiddist afbrigðið Abundance út. Það var um langt skeið útbreiddasta afbrigðið hér á landi og mun enn vera til á stöku stað.

Óli Valur Hansson beitti sér fyrir að fá þá stofna af jarðarberjum, sem best reyndust í Noregi, í tilraunir á Íslandi. Það voru afbrigðin, Senga Sengana, Glima, Jonsok og Zephyr. Hann gerði tilraunir með þau og sendi þrjú þau fyrstnefndu til athugunnar á Hvanneyri árið 1977. Þar hafa þau verið ræktuð síðan.

Á hundrað ára afmæli skólans á Hvanneyri, árið 1989, var vígt þar upphitað gróðurhús. Það varð til þess að árið 1991 voru fengin fjögur afbrigði afjarðarberjum, sem notuð hafa verið í upphituðum gróðurhúsum í Hollandi og víðar, þeirra á meðal voru Elsanta og Elvira.
Helsti frumkvöðull jarðaberjaræktar, sem búgreinar á Íslandi, er Árni Magnús Hannesson á Flúðum, sem hóf framleiðslu á jarðarberjum árið 1985 og er enn að. Möguleikar jarðaberjaræktar, sem búgreinar á Íslandi, byggist á að rækta ber undir gróðurhlífum, fyrir markað í júní-ágúst, eða rækta jarðarber í upphituðum og helst raflýstum gróðurhúsum. Ber ræktuð á Íslandi eru trúlega dýr í framleiðslu, en ættu að vera góð, m.a. vegna þess að stuttur tími er frá tínslu til sölu og auðvelt ætti að vera að láta fara vel um þau í flutningum. Jarðarber eru þeim mun betri, sem þau eru ferskari og það er erfitt að flytja jarðarber um langa vegu.

Jarðarberjaafbrigði
Í tuttugu ár hafa verið gerðar athuganir og tilraunir með ræktun mismunandi afbrigða og tegunda af jarðarberjum á Hvanneyri. Alls hafa verið reynd 20 atbrigði og tegundir. Það eru þrjú afbrigði, sem hafa reynst vel í þessi tuttugu ár, Glima, Jonsok og Senga Sengana. Þau hafa verið ræktuð við mismunandi aðstæður, í plastbúrum, undir trefjadúk og í óupphituðu plastgróðurhúsi. Afbrigðið Elsanta hefur gefið mesta uppskeru í heitu gróðurhúsi.
Glima jarðarber eru ljúffeng og fljótsprottin. Í upphaflegum heimkynnum þeirra í Noregi, þykja berin heldur smá fyrir sölumarkað. Þetta eru fljótvöxnustu berin, sem reynd hafa verið á Hvanneyri. Við erfiðar aðstæður, t.d. þegar berin voru ræktuð í plastbúrum eða undir trefjadúk í slæmu árferði, gaf afbrigðið tiltölulega góða uppskeru. Glima hentar vel til ræktunar í heimilisgörðum.

Jonsok gaf mesta uppskeru í óupphituðu plastgróðurhúsi, af þeim afbrigðum sem reynd voru. Jonsok er norskt afbrigði, sem þroskar ber lítið eitt seinna en Glima, ef ræktunin fer fram í óupphituðu plastgróðurhúsi. Þegar jarðarberin voru ræktuð í plastbúrum þroskuðust ber af Jonsok viku seinna en ber af Glima. Á Hvanneyri var ekki talinn munur á gæðum berja af þessum afbrigðum.

Senga Sengana er þþskur stofn, sem á Hvanneyri gaf góða uppskeru í góðum árum, en litla í erfiðu árferði. Berin þykja góð. Þegar berin voru ræktuð í plastbúrum, komu nýtanleg ber á Senga Sengana að jafnaði tæpum tveimur vikum seinna en á Glima, en þegar ræktunin fór fram í óupphituðu plastgróðurhúsi var Senga Sengana átta dögum seinni.

Elsanta dafnaði vel í upphituðu gróðurhúsi á Hvanneyri. Berin eru falleg og flokkast vel. Norðmennirnir Kvamme, T. og Bjelland B. (1992) telja hins vegar að Elsantaber séu ekki eins góð og ber af Glima, Jonsok og Senga-Sengana. Elsanta er mikið ræktað í upphituðum gróðurhúsum í Mið-Evrópu. Nú eru Norðmenn og Svíar að hefja slíka ræktun. Það hefur komið fram í fagritum frá Noregi að hugsanlega væri betra að rækta afbrigðið Korona í gróðurhúsunum en Elsanta, vegna þess að berin af Korona væru betri.

Það er ástæða til að minnast á tvö afbrigði til viðbótar, af þeim sem reynd hafa verið á Hvanneyri. Ber af afbrigðinu Zephyr voru stór og góð í upphafi uppskerutímans á Hvanneyri, en þau voru fá. Þetta stangast á við reynsluna frá Norður-Noregi. Öijord, N.K. (1981), frá Norður-Noregi, telur að þar komi ber á afbrigðið Zephyr um svipað leyti og ber á Glima. Hann telur því að Zephyr sé hentugt afbrigði þar sem veðurfarsaðstæður eru erfiðar.

Elvira er afbrigði, sem í Þýskalandi hefur verið notað í heitum gróðurhúsum. Það reyndist nokkuð vel í heita gróðurhúsinu á Hvanneyri, en gaf þó ekki eins mikla og heilbrigða uppskeru og Elsanta. Berin þóttu heldur ekki eins góð, þó að þau væru falleg. Þess má geta að í Mið-Evrópu er farið að nota afbrigðið Gerida í heitum gróðurhúsum, en það er afkvæmi Elsanta og Elvira.

Frjóvgun jarðarberjablóma
Á jarðarberjaplöntum myndast brum á mörkum blaða og stönguls á haustin. Til að mynda brumin þurfa plönturnar að njóta hlýju á haustin. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa gróðurhlífar yfir plöntunum eins lengi á haustin og nokkur von er til að þær vermi þeim. Á Hvanneyri var greinileg fylgni á milli hitans í september og uppskeru næsta árs.
Jarðarber verða þannig til að úr áðurnefndum brumum myndast blóm og seinna þrútnar blómbotninn og verður að því sem við nefnum jarðarber. Þau eru ekki raunveruleg ber, með fræjum innan í, heldur skinaldin með hnetum, sem liggja utan á aldininu. Frá hnetunum kemur vaki, sem stjórnar vexti berjanna.

Jarðarberjablómin eru tvíkynja og geta verið sjálffrjóvga, en það er óæskilegt og verður til þess að berin verða lítil og vansköpuð. Best er að flugur beri frjó á milli blóma, en vindur getur líka borið frjóið. Á Íslandi eru fáar tegundir flugna sem eru til þjónustu reiðubúnar fyrir jarðarberjaræktendur. Íslenskar randaflugur standa sig að vísu nokkuð vel í þessu starfi, en þær eru fáar og halda sig aðallega í nálægð votlendis, þar sem þær alast upp. Þar að auki eru berjaplöntur venjulega inni í húsi eða undir gróðurhlífum, sem torveldar bæði flugum og vindi aðgang að blómunum. Þess vegna er nauðsynlegt að gera aðrar ráðstafanir til að frjóvgun takist sæmilega, t.d. að nota tæki til að blása frjóinu af fræflunum, eða ef um litla heimilisræktun er að ræða, að bera frjóið á milli blóma með bómullarhnoðra.

Uppeldi og aldur jarðarberjaplantna

Þegar rækta á nýja jarðarberjaplöntu eru smáplönturnar, sem myndast á renglum plantnanna á vorin, teknar og gróðursettar, t.d. í sólreit eða plastbúr. Fyrir haustið hafa plönturnar náð nokkrum þroska. Næsta vor eru þær gróðursettar, þar sem þær eiga að vera næstu árin. Það má vera 1-1,2 m milli raða og 40-50 cm milli plantna í röð. Best er að gróðursetja plönturnar í gegnum svart plast, til þess að berin skemmist ekki, smáplönturnar á renglunum skjóti ekki rótum og til að verjast illgresi. Það er ókostur við plastið að það torveldar vökvun.

Í löndum þar sem ræktun jarðarberja er gróinn atvinnuvegur, eru sérstakar gróðrarstöðvar, sem framleiða plöntur fyrir jarðaberjabændur og aðra, til útplöntunar. Sjúkdómar vilja safnast fyrir í plöntunum, eins og öðrum fjölærum gróðri. Nú er farið að hreinsa sjúkdóma úr plöntunum með vefjaræktun, með sömu tækni og notuð er hér á landi við kartöflur. Þar sem jarðaberjarækt er atvinnurekstur kaupa bændur stofnplöntur til að fá heilbrigðar móðurplöntur til undaneldis. Skþringin á því að Zephyr-jarðarber stóðu ekki undir væntingum á Hvanneyri kann að hafa verið sú að stofnplönturnar hafi verið lélegar. Norðmenn og Svíar líta innflutning á stofnplöntum hornauga, vegna þess að þeir óttast að með þeim komi sjúkdómar.

Jarðaberjaplönturnar á Hvanneyri virtust eldast vel. Það var varla unnt að merkja að berin léttust neitt að ráði með aldri plantnanna, allt fram á fimmta uppskeruár. Í suðlægari löndum er talað um að berin léttist töluvert með vaxandi aldri. Á Hvanneyri var mestur fjöldi berja á plöntu á öðru og þriðja uppskeruári.

Ræktun jarðarberja í heitum gróðurhúsum
Í nokkrum löndum eru jarðarber ræktuð í stórum stíl og jarðarberjaplöntur framleiddar í upphituðum gróðurhúsum, að sögn Dypedal, H. og Sanna, E. (1994). Forustulöndin eru Holland; Belgía, Bandaríkin og Japan. Besti markaðurinn fyrir berin er að vetrinum, t.d. fyrir jólin. Nú eru menn á hinum Norðurlöndunum að hefja slíka ræktun í raflýstum og upphituðum gróðurhúsum. Til þess að þetta beri sig telja menn að nauðsynlegt sé að fá minnst tvær uppskerur á ári. Hollendingar ná nú 2 1/2 uppskeru árlega. Ræktuninni má haga á ýmsan hátt. Margir hafa plönturnar í tröppum af ýmsu tagi, sem léttir vinnu og eykur fjölda plantna á flatareiningu. Nú er þó líklega algengast að rækta plönturnar í plastpokum sem liggja á borðum og vera með dreypivökvun. Þess má geta að á Hvanneyri gafst vel að vera með tröppukassa fyrir jarðarberjaplönturnar í óupphituðum plastgróðurhúsum, sennilega vegna þess að þar hefur verið hlýrra en í beðum á gólfi gróðurhússins.

Í gróðurhúsunum er frjóvgunin vandamál. Það hefur varla gefið nógu góðan árangur að þyrla frjóunum upp í loft með blásara. Þess vegna hafa menn tekið randaflugur (hunangsflugur) eða býflugur í þjónustu sína. Randaflugurnar vinna ekki á veturna, en býflugurnar vinna hins vegar á hvaða árstíma sem er og láta rafmagnsljós ekki trufla sig. Randaflugur eru óáreitnar, þess vegna vilja garðyrkjumenn fremur nota þær en býflugur, sem eru leiðinlegar í umgengni.

Eins og áður er sagt, hafa verið gerðar athuganir á ræktun jarðarberja í upphituðu gróðurhúsi á Hvanneyri síðan 1991. Uppskera af Elsanta, afbrigðinu sem gaf mesta uppskeru, var 2,8-3,6 kg á m2. Sjálfsagt væri unnt að fá verulega meiri uppskeru með því að vera með lýsingu og láta plönturnar bera tvær uppskerur á ári. Ef ræktun jarðarberja í upphituðum gróðurhúsum tekst á hinum Norðurlöndunum, þá ætti slík ræktun einnig að takast á Íslandi.

Heimildir
Dypedal, Harald og Sanna, Eigil, 1994: Jordbærdyrking i veksthus. Gartner-yrket, 86, 4: 15-16
Einar Helgason, 1926: Hvannir. Gefið út á kostnað höfundar. 288 bls.
Kvamme, Terje og Bjelland, Björnar, 1992: Jordbærproduksjon i veksthus. Gartneryrket, 82, 12: 30-31
Simson, M., 1.941: Ræktun jarðarberja. Ársrit hins íslenska garðyrkjufélags, 82-84
Sturla Friðriksson, 1952: Jarðarberjarækt. Garðyrkjuritið, 49-54
Unnsteinn Ólafsson, 1.939: Jarðarber. Árs-rit hins íslenska garðyrkjufélags, 20-26
Öijord, Nils K., 1981: Dyrking avjordbær i Nord-Norge. Norden, 654-662.

Myndir: Efri myndin sýnir fyrsta jarðarber ársins uppskorið, Daníel Tryggvi Guðrúnarson tíu ára ný tur fyrsta bitans. Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Aug. 23, 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fyrsta jarðarberið“, Náttúran.is: Aug. 23, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/08/23/fyrsta-jaroaberio/ [Skoðað:Oct. 2, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: