Óumflþjanlegur kolefnismarkaður Bandaríkjanna gæti orðið tvöfalt stærri en sá evrópski, en fyrir bandaríska neytendur skiptir miklu hvort markaðurinn viðurkenni erlendar losunarheimildir eða verði takmarkaður við Bandaríkin.

Innan fimm ára mun fæðast í Bandaríkjunum markaður með kaup og sölu á losunarheimildum fyrir gróðurhúsalofttegundir sem verður tvisvar sinnum stærri en hinn evrópski. Markaðurinn mun velta þúsund milljörðum Bandaríkjadala árið 2020. Þetta kemur fram í spám greiningaraðila á kolefnismarkaðnum frá því í síðustu viku, sem greint er frá í frétt á heimasíðu Carbon Positive.

Pólitískur stuðningur fer nú vaxandi við svonefnt "cap and trade"-fyrirkomulag í þessu stærsta hagkerfi heims, sem einnig losar mest magn allra landa af gróðurhúsalofttegundum. Fyrir Bandaríkjaþingi liggja 13 lagafrumvörp um slíka kolefnisverslun og frambjóðendurnir þrír til forseta, sem enn eiga möguleika, hafa allir lýst stuðningi við innleiðingu útblásturstakmarkana og verslun með losunarheimildir.

Skýrsla sem unnin var af New Carbon Finance ályktar að kolefnismarkaður verði óhjákvæmilega orðinn staðreynd innan fjögurra eða fimm ára. Fylgi slíkur markaður áætlunum í Lieberman-Warner-frumvarpinu, sem ný tur mests stuðnings frumvarpa á þessu sviði, yrði verð á tonn kolefnisígildis um 40 dollarar árið 2015.

Sambærileg úttekt sem unnin var af Point Carbon, einu fremsta greiningar- og upplýsingaveitufyrirtæki á sviði alþjóðlegra kolefnismarkaða, bendir til að markaðsviðskipti með losunarheimildir geti numið 150 milljörðum Bandaríkjadala á fyrsta árinu, 2012, á grundvelli 5,7 milljarða heimilda sem hver um sig nemur einu ígildistonni kolefnis.

Einangraður eða alþjóðlegur markaður?

Í skýrslu New Carbon Finance er bent á að kolefnisverð gæti orðið talsvert lægra en 40 dollarar á tonn ef sú leið yrði farin að tengja markaðinn við aðra alþjóðlega kolefnismarkaði. Þetta myndi þýða minni kostnað fyrir bandarískan iðnað, sem og neytendur. Enn sem komið er gera bandarísk frumvörp þó ekki ráð fyrir tengingu við aðra markaði fyrir kolefnisjöfnun, til að mynda þá sem nú eru drifnir áfram af sveigjanleikaákvæðum Kýótó-bókunarinnar og hafa fest sig í sessi á síðustu árum.

Án slíkrar alþjóðlegrar markaðstengingar mun kostnaður bandarískra neytenda vegna raforkukaupa hækka um 20% fram til ársins 2015, eldsneytisverð hækka um 12% og jarðgas um 10%. Með því að heimila losunarfrekum iðnaði að kaupa sér heimildir á alþjóðlegum markaði myndi verðið á kolefnisheimildinni hins vegar lækka niður í 15 dollara á tonn, eftir því sem haft er eftir Milo Sjardin hjá New Carbon Finance. Að þessu gefnu myndi orkuverð til neytenda aðeins hækka um 7%, eldsneytisverð um 4% og gasverð um 5%.

Point Carbon bendir einnig á hættuna á háu verði losunarheimilda sem skapast, verði alþjóðlegar heimildir ekki viðurkenndar innan bandarísks kvótamarkaðar, vegna þess að framboð yrði takmarkaðra. Kjell Olav Kristiansen, talsmaður Norður-Ameríkudeildar Point Carbon, sagði þetta mæla sterklega með að Bandaríkin tækju þátt í alþjóðlegu samkomulagi um fyrirkomulag loftslagsmála eftir að Kýótó-bókunin rynni út árið 2012.

Myndatexti: John McCain hefur lýst sig fylgjandi framseljanlegum kolefniskvóta og er enginn eftirbátur demókratanna Clintons og Obama í þeim málum. Það virðist því óhjákvæmilegt að kolefnisverslun haldi innreið sína í Bandaríkin á næsta kjörtímabili, óháð því hver af þessum þremur frambjóðendum nær kjöri. 

Birt:
Feb. 25, 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Risavaxinn kolefnismarkaður handan við hornið“, Náttúran.is: Feb. 25, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/02/25/risavaxinn-kolefnismarkaour-handan-vio-hornio/ [Skoðað:Sept. 23, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: