Skattlagning ökutækja og eldsneytis er til umræðu í Morgunblaðinu í dag, enda málið ofarlega á baugi í framhaldi af mótmælum atvinnubílstjóra og jeppaeigenda gegn háu eldsneytisverði. Eins og fram kemur í Mogganum - (og ég hef líka minnst á á blogginu, sbr. bloggfærslu 28. mars sl.) - þá er þess að vænta að starfshópur á vegum fjármálaráðuneytisins skili tillögum sínum um breytta skattlagningu ökutækja og eldsneytis á allra næstu dögum. Starfshópur þessi var settur á laggirnar í framhaldi af vinnu „Vettvangs um vistvænt eldsneyti“, sem tók til starfa í ársbyrjun 2004.

Tillögur „Vettvangs um vistvænt eldsneyti“ voru kynntar snemma árs 2007. Þar var m.a. lagt til að gjöld fyrir þjónustu við umferðina (veggjöld) yrðu skilgreind sérstaklega, en að öll önnur gjöld, bæði af stofnkostnaði ökutækja (vörugjöld) og af árlegri notkun og eldsneytisnotkun (þ.m.t. bensín- og olíugjöld), yrðu tengd losun á koltvísýringi. Þannig mætti draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og hvetja til notkunar á vistvænu eldsneyti. Hér verða vörugjöldin gerð að umræðuefni, en ekki fjallað sérstaklega um hina gjaldflokkana.

Hugmyndir „Vettvangs um vistvænt eldsneyti“ um innheimtu vörugjalda af bifreiðum gengu út á að gjöldin myndu ráðast af skráðri losun koltvísýrings á hvern ekinn kílómetra, t.d. þannig að bifreið sem losar 1 kg á hvern km myndi bera 180% vörugjald ofan á tollverð. Bifreið sem losar 100 g á hvern km myndi þá bera 18% vörugjald, en bifreið sem losar 0 kg (t.d. rafmagnsbíll) væri undaný egin vörugjaldi. (Langflestir bílar losa á bilinu 100-400 g/km). Samkvæmt núverandi vörugjaldakerfi bera flestir fólksbílar 30% vörugjald en flestir jeppar 45%, (þó með tilteknum undaný águm).

Breyting í þá veru sem lýst er hér að framan myndi fela í sér verulega verðlækkun á vistvænstu bílunum, en nokkra verðhækkun á þeim sem eru frekastir á bensínið eða olíuna. Um leið myndi þetta væntanlega hafa áhrif á verð á notuðum bílum. Hægt er að hanna kerfið að vild í upphafi, þ.e. að ákveða heppilegasta samhengið milli CO2-losunar og álagningarprósentu. Fyrrnefnd 180% og 1 kg/km eru bara eitt dæmi um slíkt. Alla vega er ljóst að breyting í þessa veru gæti haft veruleg áhrif á val fólks á bifreiðum!

Bílgreinasambandið (BGS) með Egil Jóhannsson í broddi fylkingar hefur lagt til að vörugjöld af öllum bifreiðum verði lækkuð í 15%, en neyslustýringin fari fram með þeim mun meiri skattlagningu á eldsneyti. Rökin fyrir þessari tillögu eru m.a. þau að bílar mengi ekki fyrr en þeir eru notaðir og þess vegna eigi að skattleggja notkunina en ekki bílinn sjálfan. Einnig hefur verið bent á að með þessu móti megi flýta fyrir endurnýjun bílaflotans, sem í sjálfu sér er til þess fallin að draga úr losun, því að vafalaust hugsa kaupendur sinn gang vandlega þegar búið er að hækka skatta á jarðefnaeldsneyti umfram það sem nú er.

Ég var ekki sérlega hrifinn af tillögu BGS í upphafi, og hef miklu heldur aðhyllst þá leið sem „Vettvangurinn“ lagði til. Allar hugmyndir ber þó að skoða með opnum huga og reyna að sjá fyrir áhrif þeirra hverrar um sig á neysluhegðun bílkaupenda og bíleigenda. Mér finnst ábending BGS um hraðari endurnýjun bílaflotans mikilvæg, því að hluti vandans liggur jú í varanleikanum. Það er með öðrum orðum brýnt að losna sem fyrst við sem flesta eyðsluháka úr umferðinni og fá vistvænni bíla í þeirra stað. Önnur leið til að flýta fyrir endurnýjun er að hækka skilagjald á bílum verulega. Gjaldið er núna 15.000 krónur - og er tekna aflað með álagi á bifreiðagjöld. Norsk umhverfisverndarsamtök hafa lagt til að þarlendis verði gjaldið hækkað úr 1.500 í 5.000 norskar krónur (um 73.000 ísl. kr.). Þannig mætti flýta mjög fyrir úreldingu elstu og oft um leið eyðslufrekustu bílanna. Ég hef ekki orðið var við að hækkun skilagjalda hafi verið í umræðunni hér, og þess vegna datt mér í hug að nefna þetta.

Vonandi skilar starfshópur fjármálaráðuneytisins tillögum sínum um breytta skattlagningu ökutækja og eldsneytis sem allra fyrst. Okkur bráðliggur á að breyta skattlagningunni og hefja þar með markvissa vegferð í átt að minnkandi notkun jarðefnaeldsneytis og minnkandi losun koltvísýrings frá bílaflota landsmanna!

Birt:
April 13, 2008
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Hærra skilagjald á bíla?“, Náttúran.is: April 13, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/04/13/haerra-skilagjald-bila/ [Skoðað:Feb. 28, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: