Samstarfshópi sem stóð að ráðstefnunni "Orkulindin Ísland, náttúra, menntun, mannauður, sköpun, hugvit og menning hefur verið boðið að taka þátt í sýningunni Perlan Vestfirðir, sem haldin verður nú um helgina í Perlunni. Hópurinn hefur sjálfbæra þróun að leiðarljósi og hefur samið yfirlýsingu sem mun liggja frammi á sýningunni til undirskrifta:

„Náttúruverndarfólk fagnar þeirri ákvörðun Fjórðungssambands Vestfirðinga að lýsa Vestfirði stóriðjulaust svæði. Með þessari stefnuyfirlýsingu er stigið mikilvægt skref í þá átt að skapa á Vestfjörðum þekkingarsamfélag með sjálfbærni að leiðarljósi.
Atvinnustefna sem byggir á sjálfbærri þróun og grundvallar hagsæld sína á eigin frumkvæði, þekkingu og sögulegri hefð, í sátt við náttúruna, mun efla vestfirsk byggðarlög og atvinnulíf til langframa. Slík sérstaða getur orðið stolt Vestfirðinga og reynast fyrirmynd annarra samfélaga heima og heiman og þannig gott veganesti til markaðssetningar. Megi hún verða öðrum landshlutum og Íslandi öllu til eftirbreytni.
Við undirrituð heitum því að leggja Vestfirðingum lið við að koma þessari framsæknu stefnu í framkvæmd en áréttum mikilvægi þess að einstök og ósnortin náttúra Vestfjarða er stærsta auðlind svæðisins og hana ber að varðveita. Í því samhengi ber að líta til að Friðlandið á Hornströndum verði stækkað.“

Með þessari stefnuyfirlýsingu er stigið mikilvægt skref í þá átt að skapa á Vestfjörðum þekkingarsamfélag með sjálfbærni að leiðarljósi. Megi hún verða öðrum landshlutum og Íslandi öllu til eftirbreytni. Myndin er tekin við Látrabjarg, skarfakál [Cochlearia officinalis] í forgrunni.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
May 5, 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Atvinna í sátt við umhverfið - Vestfirðir stóriðjulaust svæði“, Náttúran.is: May 5, 2006 URL: http://natturan.is/d/2007/03/21/vestf_storidjulaust/ [Skoðað:Sept. 25, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 21, 2007
breytt: May 16, 2007

Messages: