Hrannar Pétursson upplýsingafulltrúi Alcan og Pétur Óskarsson talsmaður Sólar í Straumi tókust á í Kastljósi í kvöld á ákaflega snyrtilegan og faglegan hátt (sjá viðtalið). Í viðtalinu kallar Hrannar eftir dagsetningu á kosninguna þar sem Hafnfirðingum á að vera gefinn kostur á að leyfa eða banna stækkun álvers Alcan í Straumsvík. Sól í Straumi er þverpólitískur hópur áhugafólks um stækkunarmálið í Straumsvík sem haldur úti vel hönnuðum og þaulhugsuðum vef og baráttu, sem kostar aðeins nokkra tugi þúsunda í allt (sjá vefinn) að ógleymdum ótal vinnustundum sjálfboðaliða.

Samtökin standa fyrir uppákomum sem eru vel skipulagðar og kynntar og bera vott um að málefnaleg umræða sé regla númer eitt þar á bæ. En eins og fram kom í þættinum á Alcan fullar kistur af aurum til að eyða í áróður fyrir stækkuninni og getur ekki beðið eftir að hefja kosningabaráttuna enda „gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir fyrirtækið“ eins og Hrannar orðaði það. Tónleikaboðið og diskarnir með Bjögga eru sem sagt ekki kosningabaráttan sjálf heldur aðeins smjörþefur og aðdragandi að enn meiri „gjafmildi“ Alcan.
Það verður spennandi að fylgjast með því hvort að peningar duga til og hvort að takist að múta Hafnfirðingum til að samþykkja stækkunina, eða hvort að manneskjuleg, vísindaleg og málefnaleg rök og stefnumörkun um umhverfisvæna framtíðarsýn fyrir Hafnafjörð eru sterkara afl þegar upp er staðið.

 

Birt:
Jan. 4, 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Er Alcan nokkuð að hegða sér óeðlilega?“, Náttúran.is: Jan. 4, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/03/16/hegdun_alcan/ [Skoðað:Oct. 7, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 16, 2007
breytt: April 30, 2007

Messages: