Gulrót – rótar – dæmi um seinspírandi plöntu

Sáning:
Sá fyrir innirækt frá febrúar til apríl – sá úti frá miðjum apríl og fram að júní. Gulrótum er sáð beint á vaxtarstað. Það er góður siður við rótarávexti yfirleitt.

Aukaatriði:
Hægt er flýta fyrir spírun gulróta með því að setja fræin í bleyti í einn til tvo sólarhringa og þá er spírutími þeirra venjulegur. Gott er að klípa ögn framan af blöðunum og nota í salat því að það eru mikil steinefni í blaðbroddunum. Mjög erfitt er að planta út gulrótum en það er hægt í fyrstu grisjun þegar þær eru mjög litlar og ná sumar þeirra sæmilegum vexti. Til að verjast sniglum er gott að strá einhverju beittu umhverfis raðirnar eins og skeljasandi, vikri, fínum ársandi eða eggjaskurn. Akrýldúkur verndar fyrir gulrótaflugu ef hún gerir vart við sig. Á hinn bóginn er fyrsta hreinsun á illgresi og losun jarðvegsins á milli raða hjá gulrótunum afar mikilvæg. Eftir það fara þær að vaxa. Akrýldúk verður því ekki varanlega komið við fyrr en að fyrstu einni eða tveimur yfirferðum er lokuð. Ekki er nú vitað nákvæmlega um ferðir gulrótarflugunnar.

Lækningamáttur:
Gulrætur hafa verið kallaðar sítrónur norðursins vegna C-vitamín innihalds síns en í þeim er líka karótin sem gefur C-vitamín og þær þykja góðar fyrir augun. Úr þeim fæst einnig B-vitamín og margvísleg steinefni.

Uppskera:
Taka má upp gulrætur allt frá júlílokum og fram undir jól (ef breitt er yfir þær t.d gras til að verjast frosti).

Geymsla:
Best er að borða gulrætur ferskar og hráar. Þær geymast þvegnar fram í mars á köldum stað ef þær liggja ekki í bleytu á pokabotni. Í þurrum sandi geymast þær fram í maí (segja þeir sem kunna það – það mistekst alltaf hjá mér). Í frysti geymast þær fram á vor einnig. Líka má setja þær í súr. Gulrætur má þurrka en þær verða nokkuð harðar og því betri í súpur en hrámeti.

Grafík: Gulrót í Eldhúsgarðinum, beð 4. Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.

Birt:
Feb. 22, 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Gulrætur í Eldhúsgarðinum“, Náttúran.is: Feb. 22, 2013 URL: http://natturan.is/d/2011/06/11/gulraetur-i-eldhusgardinum/ [Skoðað:Dec. 2, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: June 11, 2011
breytt: Feb. 22, 2013

Messages: