Umræður um aðbúnað dýra á Íslandi magnast frá degi til dags en Sirrý Svöludóttir markaðsstjóri Yggdrasils setti inn fyrirspurn á umræðuborð Facebook síðu Matfugls fyrir nokkrum dögum, þar sem hún segir:

„Getið þið tekið myndir innan úr kjúklingabúunum ykkar hingað á Facebook og sýnt okkur hvernig aðstæður eru á íslensku kjúklingabúi? Langar rosalega til að sjá með berum augum þar sem umræðan um verksmiðjubúskap á ræktun á íslensku kjúklinga og svínakjöti hefur verið þónokkuð hávær upp á síðkastið.“

Margir tóku undir orð Sirrýjar og hefur Matfugl nú svarað á þessa leið:

..„því miður þá vissum við ekki af þessum umræðuflokki hér inn á facebook síðu okkar og munum við láta ykkur fá upplýsingar um aðstæður í okkar búum mjög fljótlega ...því við höfum ekkert að fela.“

Eitt af baráttumálum hinna nýstofnuðu Samtök lífrænna neytenda og aðalbaráttumál Vel-bús er að bæta aðbúnað dýra og útrýma verksmiðjubúskap þar sem gróðinn skiptir öllu máli en lífsgæði dýranna engu. Það verður því athyglisvert að fylgjast með hvort að einhver svari kalli neytenda og bjóði upp á kjúklinga sem ekki hafa þurft að alast upp í verksmiðjum og jafnvel að einhver sjái sér leik á borði og fari að huga að stofnun lífræns kjúklingabús. Enn sem komið eru eru engin lífrænt vottuð kjúklingabú á Íslandi.

Birt:
April 11, 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Neytendur vilja sjá aðbúnað hjá Matfugli“, Náttúran.is: April 11, 2011 URL: http://natturan.is/d/2011/04/11/neytendur-vilja-sja-adbunad-hja-matfugl/ [Skoðað:Dec. 9, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: April 12, 2011

Messages: