GAIA, félag meistaranema í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands stendur frá 30. mars til 1. apríl (miðvikudag til föstudags) fyrir Grænum dögum í skólanum. Markmið daganna er að vekja nemendur og nærumhverfi skólans til umhugsunar um umhverfismál.

Meðal þess sem verður í boði í ár eru fyrirlestrar um rafbíla og lunda, kvikmyndasýning, tónleikar og barsvar, eða pub quiz, svo fátt eitt sé nefnt. Á hverjum degi verður fatamarkaður á Háskólatorgi þar sem gestir geta skipst á notuðum fötum.

Heimildarmyndir eru áberandi í dagskránni. Á morgun sýnir Rannveig Magnúsdóttir mynd sína „Puffin in Danger“ sem fjallar um fækkun í íslenska lundastofninum. Rannveig, sem er í doktorsnámi í líffræði við HÍ, segir einnig frá tilurð og gerð myndarinnar.

Á fimmtudag stendur GAIA fyrir Íslandsfrumsýningu heimildarmyndarinnar „Carbon Nation.“ Myndin, sem frumsýnd var í Bandaríkjunum í lok febrúar, fjallar um lausnir við loftslagsbreytingum. Aðalþemað eru nýir orkugjafar, í stað jarðefnaeldsneytis, sem eru efnahagslega hagkvæmir.

Aðgangur að viðburðum Grænu daganna er ókeypis og öllum opinn.

Dagskrá Grænna daga:

Miðvikudagur 30. mars
Fatamarkaður (clothes swap): kl. 11 – 15 á Háskólatorgi
Fyrirlestur – Puffin in Danger: kl. 12.20 – 13.10 í Öskju, stofu 130
Grænir drykkir: kl. 18.30 – 19.30 í kjallara Norræna hússins
Leiðsögn um Manna sýninguna: kl. 19.30 – 20.30 í Norræna húsinu

Fimmtudagur 31. mars
Fatamarkaður (clothes swap): kl. 11 – 15 á Háskólatorgi
Fyrirlestur – Hvalveiðar á Íslandi: kl. 12.20 – 13.10 í Öskju, stofu 129
Kvikmyndasýning – Carbon Nation: kl. 17 – 19 í Háskólatorgi, stofu 102

Föstudagur 1. apríl
Fatamarkaður (clothes swap): kl. 11 – 15 á Háskólatorgi
Tónleikar – Hljómsveitin Andvari: kl. 13.00 á Háskólatorgi
Fyrirlestur – Rafbílar á Íslandi: kl. 12.20 – 13.10 í Öskju, stofu 130
Barsvar (pub quiz): kl. 20.00 á Dillon (tilboð á drykkjum og á eftir eru
tónleikar á staðnum)

Birt:
March 29, 2011
Höfundur:
Háskóli Íslands
Tilvitnun:
Háskóli Íslands „Grænir dagar í Háskóla Íslands 30. mars - 1. apríl 2011“, Náttúran.is: March 29, 2011 URL: http://natturan.is/d/2011/03/29/graenir-dagar-i-haskola-islands-30-mars-01-april-2/ [Skoðað:Nov. 27, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: