Íslenska geitin var flutt hingað til lands með landnámsmönnum en síðan hafa geitur ekki verið fluttar til landsins, þ.e. í 1100 ár. Stofninn telur í dag aðeins um 400 dýr, sem er trúlega einn minnsti einangraði geitastofn heims og er hann því í bráðri útrýmingarhættu vegna fæðar hér á landi. Geitin er talið elsta nytjadýr mannsins en geitamjólk er mest nýtta mjólk til manneldis í heiminum. Á vesturlöndum hefur kúamjólkin reyndar rutt sér til rúms en svo er ekki víðast hvar annars staðar í heiminum. Geitamjólk hentar mun betur fyrir mannfólkið en hún er auðmeltari og mun minni hætta er á óþoli af völdum hennar en kúamjólkur. Geitamjólk er sérlega góð fyrir ungabörn sem ekki njóta móðurmjólkar.

Árið 1960 taldi geitastofninn íslenski innan við 100 geitur en til að bjarga stofninum frá algerri útrýmingu greiddi ríkið bændum lágmarks meðlag með hverri geit. Í dag eru greiddar 6000 kr. árlega á hverja geit en að hámarki 20 geitum á býli. Geitur hafa því ekki getað þjónað öðrum tilgangi á bæjum en að vera gæludýr enda með afbrigðum blíð og skemmtileg dýr, að sögn Jóhönnu B. Þorvaldsdóttur í Háafelli í Hvítársíðu í Borgarfirði en hún hefur ræktað geitur í 18 ár. Árið 1999 fékk hún síðustu kollóttu geiturnar sem til voru á landinu á býli sitt en „kollótt“ þýðir að ekki vex horn á dýrinu. Kollótta geninu fylgja viss litarafbrigði sem eru einungis eru til á býli Jóhönnu en það eru litaafbrigðin gulgolsótt og gulflekkótt. Nú eru yfir 40 kollótt dýr með þessum litaafbrigðum á býlinu.

Ísland er aðili að Ríósáttmálanum en hann er samkomulag þar sem þjóðir heims skuldbinda sig til að varðveita dýrastofna í útrýmingarhættu. Þrátt fyrir þetta hefur gengið brösuglega að fá íslensk stjórnvöld til að taka ákvörðun um það hvort og hvernig það vilji styðja við geitaræktun á Íslandi. Að Háafelli eru nú samtals 116 geitur og von er á amk.100 kiðlingum í vorburði sem þýðir að nokkuð þröngt er orðið um geiturnar á býlinu. Nú er svo komið að Jóhanna þarf nauðsynlega á fjármagni að halda til að byggja nýtt geitarhús fyrir geiturnar sínar. Hugmyndir eru uppi um að reisa Geitarsetur að Háafelli.

Nýsköpun með geitarafurðir
Geitarmjólkin hefur reynst mjög vel eins og áður segir en mikil þörf er einnig fyrir geitamjólk til smjör- og ostaframleiðslu fyrir fólk með óþol fyrir kúamjólk.

Kjötið er líka afar gott og eitt hollasta kjöt sem völ er á, það er álíka fitulítið og kjúklingur en jafn próteinríkt og nautakjöt og auk þess er geitakjöt eitt það járnríkasta sem völ er á.

Geitafjársetur er fjölþætt nýsköpunarverkefni þar sem bæði væri verið að hlúa að geitarstofninum sem slíkum hér á landi, efla afþreyingu í ferðaiðnaði og nýta afurðir í nýsköpunartilgangi.

Óskað eftir stuðningi við Geitarsetur
Í þeirri viðleitni að vekja athygli á þörf þess að veita fé til viðhalds íslenska geitastofninum hefur verið hrundið af stað undirskriftasöfnun sem miðar að því að vekja athygli á starfi Jóhönnu B. Þorvaldsdóttur sem hefur byggt upp vísi að Geitafjársetri nú þegar og vill fá að ljúka því verki og koma íslensku geitinni í öruggt fylgsni, en með setrinu er ætlunin að auk veg geitarinnar íslensku með fræðslu og nýtingu í huga.
Óskað er eftir undirskriftum á lydia@internet.is.

Jóhanna B. Þorvaldsdóttir er þátttakandi í verkefninu Beint frá býli en allir þátttendur Beint frá býli eru skráðir hér á Grænar síður.

Myndin er af kiðlingi. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
May 21, 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Íslenska geitin í útrýmingarhættu - Óskað eftir stuðningi við Geitarsetur“, Náttúran.is: May 21, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/05/21/islenska-geitin-i-utrymingarhaettu-oskao-eftir-stu/ [Skoðað:Sept. 27, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: April 18, 2011

Messages: