Inntakið í ráðstefnunni Hver á íslenska náttúru? sem RSE, rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, hélt á Grand Hóteli í dag, voru framsetning hagfræðilegra og lögfræðilegra raka fyrir því að trygging eignarréttar yfir landssvæðum og þ.m.t. náttúruauðlindum sé sterkasta og besta leiðin til að tryggja að „nýting náttúrunnar“ sé mannfólkinu til hagsældar.
Ráðstefnan var vel sótt enda yfirskrift ráðstefnunnar áhugaverð og mikils vert að fá umræðu um málefnið á sem breiðustum grundvelli. Fyrst á mælendaskrá var Guðrún Gauksdóttir, dósent við HR, með erindi um „Þróun laga um eignarrétt og auðlindir“. Guðrún tók þar fyrir sögulega þróun laga um eignarrétt tengdan náttúru og náttúruaðlindum á Íslandi og benti á að svara þyrfti spurningunni um hvað „eign og eignarréttur, eiginlega sé“. Lög um þjóðlendur voru sett árið 1998, en aðdragandinn var óvissa um eignarrétt, að mati sumra. Mikil andstaða var um gildistöku Vatnalaga og hefur gildistöku þeirra verið slegið á frest til næsta árs. Verður þetta kosningamál? spurði Guðrún. Önnur spurning sem ekki hefur enn verið svarað er „hve djúpt í jörðu nær eignarréttur auðlinda?“.

Ef sneiðin liggur alla leið að miðju jarðar hlýtur hún, eftir sömu rökum, einnig að liggja eftir sömu línu afturábak, út í himingeiminn, og innifela fjölmörg himintungl og allt út í óendalega stóran alheiminn, sem enginn veit hvar endar. Eins mætti sjá þetta þannig að eigandi eins hektara lands undir Ingólfsfjalli ætti eftir nokkra jarðmöndulssnúninga (daga) og einn hring jarðar um sólu (eitt ár), allgóða sneið af alheiminum. Eignarrétturinn er og verður afstætt hugtak sem mörg og gild rök ná yfir og önnur alls ekki.1
-
Næstur á mælendaskrá var Ragnar Árnason, prófessor við HÍ, einn stofnenda RSA. Mat Ragnars sem hagfræðings er að sjálfsögðu hagfræðilegs eðlis, og er það að eignarrétturinn sé þjóðfélagslega hagkvæmastur þegar upp er staðið og vankantar ríksiseignar, eða eignarréttar „einskis manns“ séu einfaldlega allt of miklir í samanburði. Lokaniðurstaða Ragnars, sem hann kom með til að hægt sé að koma öllu landi „sem ekki er unnt að koma í hefðbundna einkaeign“, er sú að stofna hlutafélagið Náttúrugæði hf. sem hefði það hlutverk að koma öllum þeim land- og náttúrugæðum „sem ekki væri á annan hátt hægt að koma í einkaeign“ í eigu landsmanna þannig að hver og einn geti selt og farið með eign sína eins og honum finnst mestur hagnaður í (sjá glæruna).
Tilvistarréttur landslags eða náttúrufyrirbæra út frá fagurfræðilegum, listfræðilegum eða jarðsögulegum gildum, hvað þá sjálfbæriskröfum nútímans, kom ekki til tals á ráðstefnunni, og á öllu var að marka að málið snúist fyrst og fremst um að tryggja rétt einnar kynslóðar manna til að gera það sem þeir vilja, ef þeir bara græða á því. Frjálshyggjan í sínu gapandi veldi. Það er spurning hvort að markmið RSA sé hreint og beint stórhættulegt umhverfinu? Hitt er annað mál að stjórnvöldum er varla treystandi til að fara með land og náttúru af nokkurri nærfærni, sé tekið mið af reynslu síðastliðinna ára. „Ríki sem reki orkufyrirtæki eiga kannski alls ekki að eiga neitt land!“ nefndi Ragnar máli sínu til stuðnings. Málið er því flókið og spurning hvort að framsögumenn hafi ekki þegar upp er staðið nokkuð til síns máls, þ.e. að því gefnu að samfélagsþegnarnir (eigendur lands og náttúru) hugsi um sig sem einingu úr samfélagi sem þeir beri einnig ábyrgð á gagnvart komandi kynslóðum og náttúrunni sjálfri sem fóstrar okkur og við erum hluti af og dauð án.
-
Meðalhófssjónarmið og virðing fyrir komandi kynslóðum er í öllu falli eitthvað sem að taka þarf tillit til í ríkari mæli, (þó að hagfræðileg rök nái ekki til mælinga á þeim) í innsta búri RSA, ætli stofnunin að tala til nútímalega þenkjandi fólks, lýsti Ögmundur Jónasson yfir við pallborðsumræður í lok ráðstefnunnar. Ögmundur vísaði til þess að viðhorf manna sé að breytast í átt til virðingar fyrir náttúrunni og að í raun eigi náttúran sig sjálf. Eignarréttur væri í raun afnotaréttur og umgengnisréttur í örskamman tíma og að setja þurfi löggjöf um auðlindir sem slíkar. „Trúarofstæki hagfræðinganna sem talað hafa hér í dag“, sagði Ögmundur, „minnti hann á rauða ofstæki kommanna í gamla daga“. Ögmundur klingdi út með „lærum af reynslunni“, áður en hann rauk aftur niður í Alþingi til að taka þátt í afgreiðslu með eða móti fjárlögum 2007.
-

Sjá vef RSE.
1Ekki orð Guðrúnar Gauksdóttur, heldur innlegg nöfnu hennar, greinarhöfundar GT.

Birt:
Dec. 7, 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hver á íslenska náttúru og jörðina inn að kviku?“, Náttúran.is: Dec. 7, 2006 URL: http://natturan.is/d/2007/03/16/hver_a_island/ [Skoðað:Oct. 7, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 16, 2007
breytt: April 30, 2007

Messages: