Í gær, miðvikudaginn 23. apríl var sveitarstjórn Flóahrepps afhentur listi með nöfnum 217 íbúa í hreppnum sem skora á sveitarstjórn að endurskoða ákvörðun sína um að setja Urriðafossvirkjun inn á aðalskipulag hreppsins.

Í Flóahreppi eru nú 424 íbúar 18 ára og eldri. Meirihluti þeirra hefur því lýst andstöðu sinni við áform sveitarstjórnar. Í texta undirskriftasöfnunarinnar segir orðrétt:
„Við undirrituð íbúar í Flóahreppi skorum á sveitarstjórn Flóahrepps að endurskoða ákvörðun sína frá 35. fundi sveitarstjórnar 14.11.2007 um að setja Urriðafossvirkjun inn á aðalskipulag sveitarfélagsins. Að vel athuguðu máli teljum við að sveitarfélagið betur sett til framtíðar án virkjunarinnar.“
Undirskriftalistinn var afhentur á skrifstofu hreppsins að Þingborg í gærmorgun. Athygli vakti að enginn sjö kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn mætti til að veita honum móttöku. Það var Margrét Sigurðardóttir sveitarstjóri sem það gerði.

Nánari upplýsingar um undirskriftarsöfnunina veitir Svanhvít Hermannsdóttir í síma 865 7031.

Myndin er af glæru þar sem deiliskipulag með Urriðafossvirkjun er gerð að tillögu.
Birt:
April 24, 2008
Tilvitnun:
Íbúar í Flóahreppi „Meirihluti íbúa Flóahrepps mótfallin Urriðafossvirkjun“, Náttúran.is: April 24, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/04/24/meirihluti-ibua-floahrepps-motfallin-urrioafossvir/ [Skoðað:June 17, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: