Man ég grænar grundir,
glitrar silungsá,
blómabökkum undir,
brunar fram að sjá.

Man ég grænar grundir,
glitrar silungsá,
blómabökkum undir,
brunar fram að sjá.
Bóndabýlin þekku
bjóða vini til,
hátt und hlíðarbrekku,
hvít með stofuþil.

Léttfædd lömbin þekku
leika mæðrum hjá,
sæll úr sólskinsbrekku
smalinn horfir á.
Kveður lóu kliður,
kyrrlát unir hjörð.
Indæll er þinn friður,
ó, mín fósturjörð.

 

 Ó, þú sveitasæla,
sorgarlækning bezt,
værðar vist indæla,
veikum hressing mest,
lát mig, lúðan stríðum,
loks, er ævin dvín,
felast friðarblíðum
faðmi guðs og þín.

 

„Sveitasæla“ eftir Steingrím Thorsteinsson (1831-1913) er eitt af fjölmörgum ættjarðarljóðum í Skólaljóðum Ríkistútgáfu námsbóka. Um daginn, varð mér allt í einu ljóst, að skólaljóðin, sem maður lærði öll utanbókar sem barn, hafa grafið sig inn í barnssálina og brjótast nú út þegar að ættjörðinni er ógnað. Vitundarvakningin sem á sér nú stað meðal stórs hluta þjóðarinnar, sú að við séum að gera hræðileg mistök með of mikilli og tillitslausri nýtingu orkunnar, sem kreista má úr fallkrafti vatns, og selja hæst- eða lægst bjóðanda, er að sjálfsögðu ákveðin „ný -rómantík“. Enda erum við alin upp við að lofsyngja og dást að einfaldleika sveitasælunnar og höfum í hjörtum okkar lofað henni tryggð í lífi sem dauða, sbr. þetta hjartnæma ættjarðarljóð Steingríms Thorsteinssonar frá 19. öld.

Myndin er af nokkrum sauðkindum í Arnarfirði þ. 05. 06. 2005. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
July 7, 2006
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sveitasæla“, Náttúran.is: July 7, 2006 URL: http://natturan.is/d/2007/03/20/sveitasaela/ [Skoðað:Nov. 30, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 20, 2007
breytt: May 3, 2007

Messages: