Fjármálageirinn skilur nú eftir sig sviðna jörð eftir glórulausa framgöngu síðustu ára þar sem farið var af stað af meira kappi en forsjá. Lög, reglur og eftirlit virðast hafa skort og þegar alþjóðlega lausafjárkreppan hófst kom í ljós að bankarnir höfðu þanið sig um of og allt hrundi til grunna. Í framhaldinu hafa heyrst þær raddir að nema eigi allar hömlur úr gildi þegar kemur að nýtingu auðlinda okkar, bæði á landi og í sjó. Þær heyrast frá þeim sömu og leyfðu hömlulausa skuldsetningu í nafni þjóðarinnar, að henni forspurðri – svo hleypur á þúsundum milljarða.

Lánstraust Íslendinga

Lánstraust Íslendinga er skaddað eftir miklar fjárfestingar sem að mestu leyti hafa verið fjármagnaðar með lánum. Lánshæfiseinkunn ríkisins hefur lækkað og óvíst er talið að íslenskir bankar geti staðið við skuldbindingar sínar í útlöndum. Sparifjáreigendur hafa þegar orðið fyrir tjóni og hætta er á að skattborgarar fái einnig hluta af reikningnum. Það er áhyggjuefni að velmetnir talsmenn hagsmunasamtaka, álitsgjafar og jafnvel bankastjóri séu þegar farnir að leggja drög að því að leysa vandann með stórkostlegum nýjum fjárfestingum og lántökum. Formaður Samtaka atvinnulífsins hefur rætt um 1.000 milljarða fjárfestingu í stóriðju og fleiri stórum verkefnum. Stóran hluta af þessari fjárhæð yrðu íslenskir skattgreiðendur væntanlega að taka að láni í útlöndum. Það eru einkennileg viðbrögð við skertu lánstrausti að stofna til nýrra skulda fremur en til dæmis að fara sér hægt um sinn og endurvinna traust.

Fjárfesting Íslendinga í tveim stórum orkufyrirtækjum, samkvæmt árshlutareikningum frá júní 2008 og skráðu gengi bandaríkjadals hjá Seðlabankanum 10. október, nemur rúmum 800 milljörðum króna, 2½ milljónum króna á mann, eða ríflega 7½ milljón á þriggja manna fjölskyldu. Þar af eru skuldir ríflega 550 milljarðar króna, 1,8 milljónir á mann, eða rúmar 5 milljónir á hvert þriggja manna heimili. Tekjur fyrirtækjanna eru að langstærstum hluta bundnar við álverð sem fer nú hríðlækkandi. Komi til alvarlegrar heimskreppu verður það enný á lægra og áhættan alfarið Íslendinga, eina ferðina enn. 
Fjármálaráðgjafar hafa margir hverjir gefið glannaleg ráð undanfarin ár, en þó er líklega leitun að þeim ráðgjafa sem ráðlegði fjölskyldu með slíka eigna- og skuldastöðu að stofna til meiri skulda í sömu atvinnugrein. Einhverra hluta vegna telja sumir þó eðlilegt að gefa heilli þjóð þessi ráð.

Útflutingsverðmæti og framlag til þjóðarbúsins

Rætt er um nauðsyn þess að auka útflutning og sérstök áhersla lögð á álið, það sé nú að nálgast sjávarútveg hvað útflutningsverðmæti varðar. En þótt útflutningur sé mikilvægur, er hann alla jafna ekki merkilegri framleiðsla en hver önnur.
Hér verður þó að hafa nokkur atriði í huga. Í fyrsta lagi eru hráefni mjög dýr í álframleiðslu. Þau eru keypt frá útlöndum. Álver hér á landi eru í eigu útlendinga og arður af álbræðslu fer úr landi. Virkjanir eru í eigu Íslendinga, en yfirleitt hefur orkuverð ekki nægt fyrir miklu meira en vöxtum af lánum vegna virkjananna og rekstrarkostnaði (sjá til dæmis skýrslu Páls Harðarsonar, „Mat á þjóðhagslegum áhrifum stóriðju á Íslandi, 1966-1997, sem var unnin fyrir Landsvirkjun, 1998). Lánin eru erlend og vextir fara því úr landi, en rekstrarkostnaður er bæði innlendur og erlendur.

Afkoman er breytileg, en yfirleitt stendur ekki mikið eftir þegar fjármagnskostnaður og rekstrarkostnaður hefur verið greiddur. Laun starfsmanna í álverum og skattar eru líklega langstærsti tekjuliðurinn sem verður eftir í landinu af álframleiðslunni. Árið 2006 nam framleiðsla málma hér á landi um 70 milljörðum króna að framleiðsluvirði. Laun og tengd gjöld voru tæpir 7 milljarðar króna. Tekju- og eignarskattar námu að líkindum nálægt 3 milljörðum króna. Til samanburðar má nefna að laun og tengd gjöld í sjávarútvegi námu tæpum 50 milljörðum króna árið 2006.

Að bera saman hreinar útflutningstekjur af mismunandi framleiðslu án þess að tilgreina hvað verður eftir í landinu er til þess fallið að valda ranghugmyndum meðal landsmanna. Aðeins brotabrot af framleiðsluvirði málma hér á landi verður eftir í hagkerfi okkar Íslendinga.

Lágt tæknistig – lág framleiðni
Framleiðsluaðferðin sem notuð er í álbræðslu var fundin upp á 19. öld. Aðferðin er kennd við upphafsmenn sína; Bandaríkjamanninn Charles Martin Hall og Frakkann Paul Héroult sem fundu hana upp hvor í sínu lagi árið 1886. Aðferðin er sáraeinföld rafgreining og hefur lítið breyst síðan hún uppgötvuð. Tæknistigið er því til þess að gera lágt og afurðin; þ.e. ál (Al), er frumefni og býður ekki uppá mikla vöruþróun. Engar forsendur eru til að stunda slíka vöruþróun á Íslandi – í öllu falli fer hún ekki fram í stöðluðum verksmiðjum eins og hér hafa verið settar upp. Vöruþróun í framleiðslu málma krefst sérþekkingar og samvinnu við þá sem nota munu afurðina.  Sú sérþekking er tæplega til staðar í landinu og engin fyrirtæki sem þurfa slíka vöruþróun og geta stutt við hana.

Þeirri skoðun hefur stundun verið haldið fram hérlendis að stóriðja sé hátækniiðnaður vegna þess að nýjasta tækni sé notuð við framleiðsluna. Þetta er afar langsótt. Menn nota nýjustu tækni í öllum atvinnuvegum sama hvaða nöfnum þeir nefnast. Smábátaútgerð hefur t.a.m. ekki verið kölluð hátækniiðnaður hingað til þó menn noti stundum tölvustýrð handfæri við fiskiríið og bílar eru hátæknifyrirbæri þótt ekki teljist það hátækni að aka slíkum.

Stóriðjuframkvæmdir og hvað svo?
Atvinnu- og efnahagsrökum hefur verið beitt markvisst í þágu stóriðjuupbyggingar hér á landi síðastliðin ár. Þegar til langs tíma er litið breytir álver engu um atvinnuleysi á landinu öllu. Atvinnuleysi ræðst til langs tíma af grunnstærðum hagkerfisins, eins og menntunarkostum og starfsþjálfun sem í boði eru, lágmarkslaunum, atvinnuleysisbótum, styrk samtaka á vinnumarkaði og fleiru. Einstök fyrirtæki eins og álver breyta þar engu. Ef álver hefur áhrif á fjölda starfa á tilteknu svæði eða landinu öllu er það með flutningi fólks sem ella hefði unnið annars staðar.

Að öllum líkindum á atvinnuleysi eftir að aukast eftir atburði síðustu daga. Spurningin er hvort störf muni skapast hjá fyrirtækjum sem hafa átt erfitt uppdráttar í þenslunni, s.s. sprotafyrirtækjum og fyrirtækjum í ferðaþjónustu, eða með nýjum stóriðjuframkvæmdum.
Svara verður þeirri spurningu hvað taki við eftir næstu stóriðjuframkvæmdir. Áður en lagt er af stað í virkjana- og stóriðjuframkvæmdir á forsendum atvinnu- og byggðasjónarmiða hlýtur það að vera krafa okkar að álverið á Reyðarfirði og virkjun við Kárahnjúka sé skoðuð og ávinningur þeirrar framkvæmda metinn m.t.t. íbúaþróunar, jafnréttis- og kynjasjónarmiða, fjölgunar starfa, margfeldisáhrifa og þar fram eftir götunum.


Lokaorð
Nú þegar talað er um að bretta upp ermarnar og nýta auðlindirnar í hvelli er ekki úr vegi að spyrja hvort það sé vilji okkar Íslendinga að standa í svipuðum sporum með þær eins og bankakerfið eftir nokkur ár. Að allt verði fullnýtt og ofnýtt og að eftir standi sviðin jörð – og hvað á þá að gera? Eigum við ekki að skilja eitthvað eftir fyrir komandi kynslóðir?
Framtíðarlandið hefur ítrekað bent á það að hlutverk stjórnvalda í atvinnuuppbyggingu sé að tryggja stöðugt efnahagsumhverfi, styrkja grunngerð samfélagsins og skapa þannig öllum atvinnugreinum góð skilyrði til vaxtar. Við þurfum nú að læra að hugsa lengra fram í tímann til að tryggja gott atvinnulíf og lífskilyrði í landinu til frambúðar.

Mynd: Skiliti um Kárahnjúkavirkjun á útsýnisstað sem nú er á botni Hálslóns. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Oct. 12, 2008
Höfundur:
Framtíðarlandið
Tilvitnun:
Framtíðarlandið „Tvö stærstu orkufyrirtækin í opinberri eigu skulda 550 milljarða króna“, Náttúran.is: Oct. 12, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/10/12/tvo-staerstu-orkufyrirtaekin-i-opinberri-eigu-skul/ [Skoðað:July 25, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: