Hrossagaukshreiður. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Páskadagurinn getur fallið á tímabilið frá 22. mars til 25. apríl. Sú regla, sem miðar við tunglmánuði og jafndægri á voru, var samþykkt á kirkjuþingi í Nikeu í Litlu Asíu árið 325 e. Kr. Aðrar hræranlegar kirkjuhátíðir svosem föstuinngangur og hvítasunna færast til í árinu með páskum. Páskahátíðin er hinsvegar langtum eldri meðal gyðinga og var til löngu fyrir daga Móse, meðan Hebrear voru enn hirðingjar. Var hún þá haldin til að fagna fæðingu fyrstu lambanna sem einskonar uppskeruhátíð hirðingjanna. Þá átu þeir páskalambið með viðhöfn einsog Jesús síðar með lærisveinum sínum.

Hátíðin heitir á hebresku pesakh, en það orð er einnig brúkað um páskalambið sjálft. Þaðan er orðið páskar komið til okkar gegnum arameisku, grísku og latínu. Upprunaleg merking orðsins mun vera hopp eða hlaup og gæti bent til þess, að einhverskonar dans hafi verið hafður í frammi við þetta tækifæri. Hitt mun yngri skýring, sem ráða mætti af 2. Mósebók 12, að orðið merki „framhjáhlaup” af því að Drottinn „hljóp yfir” hús Ísraelsmanna, sem voru roðin í blóði páskalambsins, þegar hann deyddi alla frumburði Egypta.

Í kristnum sið eru páskarnir hinsvegar haldnir helgir sem upprisuhátíð Jesú Krists og eru elstir kristinna hátíða, Í fyrstunni mun hátíðin aðeins hafa átt við upprisudaginn sjálfan, en síðar var dögunum fjölgað og á 4. öld er orðinn siður að láta hana standa í 8 daga einsog aðrar stórhátíðir að dæmi gyðinga. Síðan er breytilegt eftir tímabilum, hversu margir páskadagarnir teljast, en á Íslandi voru þeir lengstum þrír (þrírheilagt) eða þar til einn var afnuminn árið 1770. Það mun hafa talist efnahagsleg nauðsyn að fækka helgidögum.

Í Evrópu blandaðist hin kristna páskahátíð mjög saman við eldri vorhátíðir, sem haldnar höfðu verið frá ómunatíð um svipað leyti. Þetta sannast í einfaldastri mynd á því, að nafnið páskar er hvorki notað um hátíðina í þýsku né ensku. Hún heitir þar Ostern og Easter, sem hvorttveggja er af sömu rót og orðið austur, átt sólaruppkomunnar. Var í þessum löndum lengi togstreita um það, hvort taka skytldi upp latneska orðið pascha, en nafn hinnar fornu vorhátíðar varð ofaná. Sumir hafa haldið fram tilveru germanskrar vorgyðju, Ostara, sem hefði samsvarað hinni rósfingruðu morgungyðju Eos hjá Grikkjum og Aurora hjá Rómverjum. Það er þó enn ósannað mál.

En af þessum samruna eru óteljandi páskasiðir í Evrópu sprottnir. Páskaeggin eru eitt þessara fyrirbæra. Um þetta leyti taka fuglar að verpa, og af því hefur einhverntíma orðið til einskonar eggjahátíð. Ber þá að hafa í huga, að eggið er mikið frjósemistákn auk þess að vera góðgæti. Sú tilbreytni tengist síðar páskunum,og á páskadagsmorgun fengu börnin að fara út í skóg að safna eggjum, sem síðan mátti borða, en neysla eggja var bönnuð á föstunni einsog kjöt. Þegar borgir stækkuðu, varð örðugara að finna egg með náttúrulegum hætti. Þá tók fullorðna fólkið uppá því að fela egg í görðum, svo að börnin hefðu eitthvað til að finna. Var þá víða svo látið heita, að páskahérinn kæmi með eggin og feldi þau, þótt önnur dýr séu einnig nefnd til.

Hérakjöt var og er algengt lostæti að vorlagi í Miðevrópu, en með tilkomu föstunnar mátti vitaskuld ekki neyta þess fyrr en á páskunum. Af því eru runnar myndir af páskahéranum, sem oft eru gerðar úr vaxi eða sem bakkelsi. Þær minna vissulega á samsvarandi myndir af páskalambinu, sem reyndar var um leið látið tákna “guðslambið sem ber synd heimsins”, Jesúm Krist. Að því kom, að í stað eggja til átu var tekið að útbúa skrautleg páskaegg. Innihaldið var sogið úr egginu og skurnin síðan máluð eða myndskreytt með öðrum hætti. Þetta handverk er þróaðast og líklega elst meðal slavneskra þjóða, enda geta mörg þeirra talist listaverk. Þegar sælgætisiðnaðinum óx fiskur um hrygg, var tekið að hagnýta páskaeggin í hans þágu. Eldra stig þess er egglaga öskjur fylltar með sælgæti. Yngra stigið er svo súkkulaðieggin, sem nú eru almennust. Málshættirnir, sem inni í þeim eru, eiga sér einnig langa sögu, því að álíka vísdómsorðum var stundum smokrað inn í áðurnefnda eggjaskurn.

Páskaeggjasiðurinn virðist hafa verið svotil óþekktur hér á landi þar til í kringum 1920. Líkur benda til, að Björnsbakarí í Reykjavík hafi orðið fyrst til að innleiða hann. Í öndverðu tíðkuðust öskjurnar fyrrnefndu, en síðan súkkulaðieggin. Það hefur aldrei orðið algengt hér að skreyta hænuegg, þótt undantekningar finnist og þá elst harðsoðin egg, sem síðar mátti borða. Fyrir utan hina kirkjulegu athöfn er naumast hægt að benda á íslenskar venjur eða þjóðtrú, sem öðru fremur sé tengd páskunum. Helst er að nefna sólardansinn, en á páskadagsmorgun á sólin að dansa af gleði nokkur augnablik nákvæmlega á sömu stundu og frelsarinn reis upp frá dauðum. Sumir segja reyndar, að þetta gerist ekki nema páskadaginn beri upp á sama dag í almanakinu og árið sem Jesús reis upp. Fáir telja sér hafa auðnast að sjá sólardansinn, senda á hann að vera flestum mennskum augum ofviða sakir birtu og ljóma, svo að þeir fái þá varla heil síðan.

Þó eru til lýsingar á honum, og sagði kona ein gömul austan úr Hreppum, að hún ásamt fleira fólki hefði séð, hvernig „sólin hefði stigið upp og fram til baka og farið nokkrar sveiflur í hring. Þessar hreyfingar sagði hún hefðu verið endurteknar nokkrum sinnum og ljóminn, sem stafaði út frá þessum hreyfingum hefði verið undurskær og fagur.” Þetta átti að hafa skeð laust eftir 1850. Sagnir um sólardansinn eru kunnar í öðrum löndum, en sumstaðar er hann talinn eiga sér stað á hvítasunnunni. Ástæða þess, að lítill vorhátíðarsvipur var á páskahaldinu hér miðað við önnur lönd, er vafalaust aðallega sú, að Íslendingar áttu sér frá


  Tengdir viðburðir

 • Páskar

  Location
  Not located
  Start
  Sunday 20. April 2014 00:00
  End
  Monday 21. April 2014 00:00
Birt:
March 27, 2016
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Páskar“, Náttúran.is: March 27, 2016 URL: http://natturan.is/d/2007/04/11/pskar/ [Skoðað:Jan. 29, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: April 11, 2007
breytt: March 27, 2016

Messages: