Frétt umhverfisráðuneytisins frá í gær um mikla aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi lýsir fyrst og fremst því metnaðarleysi sem einkenndi loftslagsstefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Samkvæmt loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar frá 6. mars 2002 skyldi dregið úr „…útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum með almennum aðgerðum og með breytingum á skattlagningu á dísilbílum, sem leiði til aukningar í innflutningi á slíkum bílum til einkanota.”

Þessar „almennu aðgerðir“ sem kynntar voru af ríkisstjórn Davíðs Oddssonar árið 2002 hafa gjörsamlega mistekist. Samkvæmt tölum Umhverfisstofnunar frá í gær jókst losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum um 146.000 tonn milli áranna 2005 og 2006, eða um 17%, að langmestu leyti vegna vegasamgangna. Tölur Umhverfisstofnunar þurfa þó ekki að koma umhverfisráðherra á óvart því samkvæmt frétt fjármálaráðaráðuneytisins frá í desember 2007 jókst losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum um 60% á árabilinu 1990 – 2006.

Fátt ef nokkuð í fyrr nefndri stefnumörkun ríkisstjórnarinnar frá 2002 hefur gengið eftir og framfylgd íslenska ákvæðisins um, að „... koltvíoxíðútstreymi frá nýrri stóriðju eftir árið 1990 sem fellur undir íslenska ákvæðið [skuli] ekki vera meiri en 1.600 þ. tonn árlega að meðaltali árin 2008-2012.” er nú ógnað af framgöngu Norðuráls í Helguvík, áformum Alcoa um byggingu álvers á Bakka og áformum Rio Tinto Alcan um stækkun álversins í Straumsvík er nemi 45 þúsund tonnum af áli á ári. Enn verra er að gríðarleg aukning í losun flúorkolefna frá álveri Norðuráls á grundartanga gæti hæglega valdið því að Ísland geti ekki staðið við skuldbindingar sínar um að almenn aukning losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi verði inn við 10% á tímabilinu 2008 – 2012.

Greinilegt er að umhverfisráðherra verður að veita álfyrirtækjum mun meira aðhald en verið hefur. Ráðherra ber þegar í stað að lýsa yfir að umsókn Norðuráls um losunarheimildir vegna álvers í Helguvík verði ekki tekin til greina fyrr en ljóst verður hvort fyrirtækinu tekst lágmarka útblástur flúorkolefna (PFC, sem eru 6500 sinnum virkari gróðurhúsalofttegundir en koltvísýringur (CO2)) frá álveri sínu á Grundartanga. Ennfremur ber ráðherra að fyrirskipa Umhverfisstofnun að þegar í stað rannsaka hversu mikið magn af PFC Norðurál losaði árið 2007 og að fylgst verði náið með losun PFC frá álveri Alcoa á Reyðarfirði.

Samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands á tímabilinu 31. október til 11 nóvember 2007 telja 78% aðspurðra að stjórnvöld geri lítið til að að draga úr útstreymi mengandi efna sem valda gróðurhúsaáhrifum og loftslagsbreytingum. Rúm 13% aðspurðra töldu að stjórnvöld geri mikið og tæp 9% tóku ekki afstöðu. Ofangreindar staðreyndar sýna ótvírætt að almenningur hefur rétt fyrir sér.

Birt:
April 24, 2008
Höfundur:
Árni Finnsson
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Misheppnuð loftslagsstefna Davíðs og Halldórs “, Náttúran.is: April 24, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/04/02/misheppnuo-loftslagsstefna-davios-og-halldors/ [Skoðað:Feb. 5, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: April 2, 2008
breytt: April 24, 2008

Messages: