Nú stendur hinn árlegi atburður „sprengjum gamla árið í tætlur“ fyrir dyrum. Sprengigleði landsmanna virðist aukast ár frá ári og hafa verð eða mengun þar engin áhrif á. Talið er að hér á landi verði skotið á loft þúsund tonnum af sprengiefni í ár.

Í stóra samhenginu eru áhrifin gífurlega neikvæð fyrir umhverfið og er í raun ófyrirgefanleg forheimskun að úða þessum eiturefnum út í andrúmsloftið, jarðveginn og í lungun á okkur. En viljinn til að sprengja og hrökkva í kút eitt og eitt augnarblik í senn og gapa af undrun og aðdáun yfir ljósarósum á lofti einn dag á ári, er kannski skárra en að sprengiþörfin brjótist út á enn neikvæðari hátt, út allt árið.
Kannski verðum við mennirnir að viðurkenna fyrir sjálfum okkur að við séum villidýr, getum ekki annað en unnið spellvirki á umhverfinu vegna árásargirni okkar, sem verður að fá útrás, hvað sem það kostar.

Meðvituð og vel meint umhverfisvæn stefna okkar fjölskyldu á Gamlárskvöld í fyrra (ein raketta á miðnætti og stjörnuljós framan að kveldi) orsakaði nú ári seinna, einbeittann baráttuvilja yngsta fjölskyldumeðlimsins (8 ára drengs), í þá átt að í ár yrði fjölbreyttara sprengiefni á boðstólum. Þar sem glöð börn eru okkur allt, var látið undan í gær og fjárfest í „barnapakkanum“, einni stórri rakettu fyrir miðnætursprenginguna og fjórum minni rakettum til að sprengja fram að hápunktinum.
Innkaupaleiðangurinn í söluskála Hjálparsveitar Árborgar orskaði þó hálfgert sjokk hjá Grasguddu, því umfangið og úrvalið að ógleymdu verðlaginu á skotefninu gekk fullkomnlega fram af henni. Vísitölusalan (sala á mann) mun í ár verða á bilinu 10.000 - 20.000 kr. að sögn fróðra manna. En allt er þetta þó í bland við mennninguna því að Íslendingasögurnar lifa sérstöku lífi í formi terta sem kenndar eru við ýmsa bardaga úr Íslendingasögunum. Hönnun pakkanna og markaðshugmyndin er óneitanlega snjöll! Ætli vísitölusalan í Íslendingasögunum sjálfum nái þessari sömu upphæð í ár?
-
Þrátt fyrir gífurlegan gróða af flugeldasölunni hafa Hjálparsveitir landsins agnúast út í einkaframtakið undanfarna daga fyrir það að taka frá þeim einhver prósent af viðskiptunum, og sýnist sitt hverjum í því sambandi. Eitt er víst að í mótvægi við þessa fjáröflunarleið sinna sveitirnar mikilvægu starfi sem að ef að þegar á þarf að halda verður ekki unnið af einkaaðilunum1 á sprengiefnamarkaði.
-
Önnur fjáröflunarleið hjálparsveitanna er að taka við fernum til endurvinnslu sem verður að teljast til mótvægis við sprengiefnasöluna, umhverfislega séð.
Síðan 1. janúar 2003 hefur verið lagt skilagjald á fernur (samsettar pappaumbúðir). Frá og með 1. apríl 2003 greiðir Úrvinnslusjóður söfnunar- og flutningsgjald til sveitarfélaga vegna söfnunar og endurnýtingar á fernum. Hjálparsveitirnar, íþróttafélög og félagsamtök á landinu hafa í auknum mæli staðið að fjáröflun með söfnun á fernum. Sjá nánar um hvernig skilagjaldskerfið virkar á vef Úrvinnslusjóðs.
-
1
Örn Árnason kemur örugglega ekki til bjargar ef að við lendum í slysum eða illa fer í náttúruhamförum á árinu.
Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Dec. 31, 2006
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sitt af hvoru tagi - Fjáröflun Hjálparsveitanna“, Náttúran.is: Dec. 31, 2006 URL: http://natturan.is/d/2007/03/16/fjarofl_hjalparsv/ [Skoðað:Oct. 7, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 16, 2007
breytt: Dec. 25, 2007

Messages: