Út er kominn bæklingurinn „Upp í sveit 2009“ en þar eru birtar upplýsingar um bæi í Ferðaþjónustu bænda, Beint frá býli og í Opnum landbúnaði. Þetta er í fyrsta sinn sem þessir þrír aðilar vinna saman að kynningarstarfi á gistingu, mat og afþreyingu í sveitinni.

Opinn landbúnaður er á vegum Bændasamtakanna en hann gengur út á að opna býlin fyrir gestum og kynna íslenskan landbúnað. Nú eru alls 34 bæir sem starfa undir merkjum Opins landbúnaðar en í fyrra komu alls um 37 þúsund manns í heimsóknir á bæina.

Beint frá býli stígur nú sín fyrstu skref í kynningarstarfi en 36 bæir í félaginu kynna það sem þeir hafa á boðstólum í bæklingnum. Bændasamtökin eru í samstarfi við BFB en Árni Snæbjörnsson ráðunautur starfar í hálfu starfi með félaginu að framgöngu félagsins.

Upp í sveit 2009 verður hægt að nálgast fljótlega á öllum helstu ferðamannastöðum landsins, á bensínstöðvum og öðrum opinberum stöðum. Frumsýning á honum er þó á sýningunni „Ferðalög og frístundir“ sem haldin er í Laugardalshöll nú um helgina, dagana 8.-10. maí. Þar verða Ferðaþjónusta bænda, Opinn landbúnaður og Beint frá býli með veglegan kynningarbás.

Opnunartímar sýningarinnar Ferðalög og frístundir:
Föstudag 8. maí kl. 16:30-19:00
Laugardag 9. maí kl. 11:00-18:00
Sunnudag 10. maí kl. 11:00-17:00

Á græna Íslandskortinu má sjá bæi verkefnanna Opins landbúnaðar og Beint frá býli auk bæja Ferðaþjónustu bænda með umhverfisvottanir.

Bæir Opins landbúnaður birtast á Græna Íslandskortinu undir „Húsdýr í sveit“ og „Barnvænn staður“ auk annarra flokka sem taka til sérstöðu hvers bæs fyrir sig auk þess sem bæir Opins landbúnaðar birtast á Grænum síðum undir Þjónusta/Ferðaþjónusta en þá er hægt að leita að því hvar ákveðin þjónusta/afþreying er fyrir hendi.
Bæir Beint frá býli er að finna á Græna Íslandskortinu undir „Heimavinnslu“ auk annarra flokka sem taka til sérstöðu hvers bæs fyrir sig og á Grænum síðum undir þjónusta/heimavinnsla/Beint frá býli.
Bæir Ferðaþjónustu bænda sem eru með umhverfisvottun birtast á Græna Íslandskortinu undir „Umhverfisvæn ferðaþjónusta“ auk annarra flokka sem taka til sérstöðu hvers bæs fyrir sig og á Grænum síðum undir þeim þjónustuflokkum sem hver bær bíður upp á. 

Birt:
May 9, 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Upp í sveit 2009“, Náttúran.is: May 9, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/05/09/upp-i-sveit-2009/ [Skoðað:July 8, 2020]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: