Orkusparnaður með aukinni tækni er þema náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs árið 2008. Verðlaunin sem eru 350.000 danskra króna, eða jafnvirði rúmra 4,5 milljóna íslenskra króna, eru ein af fjórum sem Norðurlandaráð veitir árlega og verða á þessu ári afhent í fjórtánda sinn.

Umhverfisverðlaunin eru veitt fyrir norræna framleiðslu, uppfinningu eða þjónustu sem stuðlar að orkusparnaði. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, stofnun, samtökum eða einstaklingi (til að mynda uppfinningamanni eða fræðimanni).

Framleiðsluna, uppfinninguna eða þjónustuna á að vera hægt að nýta alls staðar á Norðurlöndum. Framleiðslan, uppfinningin eða þjónustan getur verið allt frá stórum kerfum niður í lausn á einstöku vandamáli.

Allir geta sent inn tilnefningu til verðlaunanna. Frestur til þess rennur út 25. apríl n.k. Dómnefnd skipuð fulltrúum frá öllum norrænu ríkjunum og sjálfsstjórnarsvæðunum þremur velur verðlaunahafa.

Í fyrra var þema umhverfisverðlaunanna sjálfbært og umhverfisvænt bæja- og borgarumhverfi. Þá komu verðlaunin í hlut sveitarfélagsins Albertslund í Danmörku. Önnur verðlaun Norðurlandaráðs eru bókmenntaverðlaunin, kvikmyndaverðlaun og tónlistarverðlaun.

Grein frá Viðskiptablaðinu.
Birt:
Feb. 11, 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Umhverfisverðlaunin fyrir orkusparnað“, Náttúran.is: Feb. 11, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/02/11/umhverfisverolaunin-fyrir-orkusparnao/ [Skoðað:Sept. 30, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: