Í tilefni þess margbreytilega veðurfars er nú stendur yfir, birtum við örlítinn kafla úr ritinu „Atla, eður ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn, helst um jarðar- og kvikfjárrækt aðferð og ágóða, með andsvari gamals bónda. Samanskrifað fyrir fátækis frumbýlinga, einkanlega þá sem reisa bú á eyðijörð“. Ritið er eftir séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (1724-1794) og kom út árið 1777. Í kaflanum „Af loftinu má svo veður marka“ segir svo:

„Þegar loftið kólnar á vetrum, eftir það norrænur og austrænur hafa gengið, og komi þá smár kornsnær, það merkir varanlegan kulda.

  • Raki í lofti á morgnana boðar storm og regn en á kvöldin merkir það þurrt og hreint veður. Kvöldroðinn bætir, morgunroðinn vætir.
  • Þegar þykkna breytist í bjart loft um fjallatinda, merkir þurrviðri.
  • Þegar það hérað loftsins í austnorðri, sem menn kalla Jakobsveg eða -stiga, er skært, hvítt og fagurt á kvöldin, boðar skírviðri.
  • Þegar birtir undir þykkni í norðri, merkir að veður muni þorrna. Sama merkir lítill skýjabakki í norðri og austri þegar loft er heiðbjart.
  • Þegar loft er rautt í suðri boðar regn, hvort sem það sést á nótt eða degi.
  • Þegar loftið er fullt með ryk og mosk og sýnist mórautt , merkir úrfelli
  • Þegar náttdögg fellur að aftni strax eftir sólarlag, boðar oftast þurran dag eftir á.
  • Ef maurildi sést mikið í sjó, boðar sunnanátt og þeyvind, oftast hvassan.“

Atli var endurútgefin árið 1983 í Riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, en bókin inniheldur ennfremur ritið Grasnytjar og Arnbjörgu. Sjá nánar.

Myndin er af  Riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal.

 

 

Birt:
April 1, 2014
Tilvitnun:
Björn Halldórsson í Sauðlauksdal „Af loftinu má svo veður marka“, Náttúran.is: April 1, 2014 URL: http://natturan.is/d/2007/03/21/loft_vedur_marka/ [Skoðað:Jan. 27, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 21, 2007
breytt: April 1, 2014

Messages: