Aðalfundur Landverndar hvetur stjórnvöld að hefja nú þegar grunn- og yfirlitsrannsóknir (m.a. kortlagningu) á náttúrufari Íslands af röggsemi og staðfestu, sem skili nauðsynlegum þekkingar- og upplýsingagrunni undir ákvarðanir stjórnvalda um náttúruvernd, nýtingu og verndun náttúruauðlinda, áhrif meiri háttar framkvæmda á umhverfið, þol náttúrulegs umhverfis gegn mannlegu áreiti og aðra þá þætti, sem leiðir af stjórnsýslu og aðgerðum þjóðarinnar gagnvart náttúrunni. Jafnframt eru stjórnvöld hvött að koma upp sem fyrst myndarlegu náttúruminjasafni með nútímalegum hætti, svo að almenningur geti m.a. kynnt sér sem best umræddan grundvöll að ákvörðunum um afskipti þjóðarinnar af náttúru landsins. Greinargerð:

Alkunna er sú vanræksla, sem stjórnvöld hafa sýnt almennum náttúrufarsrannsóknum á landinu og uppbyggingu náttúrufræðisafns (náttúruminjasafns) í samræmi við bestu
sýningarhætti hverju sinni, þá sex áratugi, sem liðnir eru frá því Hið íslenska náttúrufræðifélag afhenti ríkinu safn sitt og hússjóð til meðferðar og frekari þroska.
Afleiðingar þessarar vanrækslu hafa nú á síðustu árum verið sí og æ að koma í ljós, þar sem upplýsingar hefur skort, t.d. í tengslum við svokallaða rammaáætlun, ítrekað við mat á umhverfisáhrifum og við frummat á auðlindum landsins.

Úr þessu verður ekki bætt í einni svipan. Bæði skortir svo mikið enn á umræddar upplýsingar og eins er verkið það mikið, sem vinna þarf, að það þarf vissan aðdraganda. Vart mun vanáætlað, að 10 – 15 ár þurfi til verksins, ef vel skal að því staðið, og er þá reiknað með aðdraganda allt að þremur árum og afdraganda (lokum) með svipuðu móti. Gróft áætlað má reikna með, að heildarkostnaður verði að fjárhæð nálægt 5 milljörðum kr., en nýjar þarfir á þessu tímabili gætu eðlilega kallað eftir meira fé. Samkvæmt núverandi stofnanakerfi hins opinbera er eðlilegt að Náttúrufræðistofnun Íslands verð leiðandi þessu verki, þótt aðrar stofnanir komi einnig að því, eftir eðli sínu og stöðu.
Birt:
May 6, 2007
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Ályktun um grunn- og yfirlitsrannsóknir á náttúrufari Íslands - Landvernd“, Náttúran.is: May 6, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/05/06/lyktun-um-grunn-og-yfirlitsrannsknir-nttrufari-sla/ [Skoðað:March 2, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: May 11, 2007

Messages: