Á mánudag og þriðjudag, 7. og 8. september, verður haldin ráðstefna um bindingu koltvísýrings í jarðlögum. Ráðstefnan fer fram á heimavelli Carbfix verkefnisins, í Hellisheiðarvirkjun. Carbfix er samvinnuverkefni Háskóla Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur, Columbia Háskóla og Háskólans í Toulouse í Frakklandi. Á meðal fyrirlesara á ráðstefnunni eru fremstu loftslagssérfræðingar heims.

Tilraunir með niðurdælingu á koltvísýringi munu hefjast nú á haustdögum eftir tveggja ára undirbúning hér á landi og erlendis. Tilraunin verður gerð með niðurdælingu vatnsblandaðs koltvísýrings djúpt í Svínahraunið, rétt við gömlu Þrengslavegamótin.

Ráðstefnan hefst á mánudagsmorgunn með ávörpum Hjörleifs Kvaran forstjóra OR og Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Þá flytja m.a. erindi Wally Broecker og Klaus Lackner frá Columbia háskóla og Tore Torp frá Statoil, en Norðmenn hafa dælt koltvísýringu niður í gaslindir sínar um árabil. Ráðstefnuna sækja vísindamenn og stefnumótunaraðilar frá flestum heimsálfum. Henni lýkur síðdegis á þriðjudag.

Markmið verkefnisins er að kanna möguleika og fþsileika þess að binda jarðhitalofttegundina CO2 sem karbónatsteind í basalti. Koltvísýringur er sem kunnugt er gróðurhúsalofttegund og er tæplega 0,5% gufunnar frá Hellisheiðarvirkjunar. Formaður vísindaráðs verkefnisins er dr. Sigurður Reynir Gíslason á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og verkefnisstjóri er Hólmfríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri nýsköpunar og þróunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Verkefnið kann að leiða í ljós að gerlegt sé að draga umtalsvert úr losun CO2 frá jarðvarmavirkjunum og öðrum uppsprettum koltvísýrings. Kolsýrðu vatni verður dælt undir þrýstingi niður í neðri grunnvatnsstrauminn á 400-800 m dýpi sem er einangraður frá efri grunnvatnslögum. Þar munu eiga sér stað efnahvörf við málmjónir í basaltberginu og með tímanum myndast karbónatsteindir. Þetta ferli hefur átt sér stað á náttúrulegan hátt um aldir á jarðhitasvæðinu en með verkefninu er verið að hvetja þessi efnahvörf. Vísindamenn víða um heim fylgjast grannt með tilrauninni þar sem hún miðar að bindingu gróðurhúsalofttegundarinnar CO2 með varanlegri hætti en tekist hefur verið annars staðar.

Fjöldi fyrirlesara verður á ráðstefnunni og má sjá dagskrána hér.
Nánar um CarbFix verkefnið.

Grafík: Niðurdælingin myndgerð. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Sept. 4, 2009
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Ráðstefna um bindingu koltvísýrings í jarðlögum“, Náttúran.is: Sept. 4, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/09/04/raostefna-um-niourdaelingu-koltvisyrings/ [Skoðað:Feb. 5, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: