Menntun, reynsla, fyrri störf og aðdragandi vefsetursins Náttúran.is

Ég byrjaði 16 ára gömul í Myndlista og handíðaskóla Íslands. Útskrifaðist úr málaradeild árið 1978 fór svo til Parísar í nám við École Nationale Supérieure des Beaux-Arts og síðan til München í Akademie der Bildenden Künste þaðan sem ég lauk námi í málun og grafík árið 1983 með Diploma (M.F.A.) Summa cum laude. Eftir að hafa hlotið heiðursstyrk Akademíunnar „Debütanten Förderpreis“ sem aðeins einn útskriftarnemi hvers semesters hlýtur (þetta var í fyrsta skipti í sögu skólans sem erlendum nemanda hlotnaðist þessi heiður) ákvað ég að vera lengur og var sú ákvörðun mín tekin eftir að ég hlaut annan mikilvægan styrk frá Engelhorn Stiftung zur Förderung Bildender Kunst GmbH.

Fór ári eftir útskrift aftur til Íslands og starfaði þar að list minni frá miðju ári 1985 til miðs árs 1987. Árið 1986 fékk ég starfslaun listamanna í 12 mánuði sem á þeim tíma hlotnaðist aðeins 2 myndlistarmönnum á ári og var starfslaunum þá ekki veitt til lengri tíma en 12 mánaða. Sýndi í vestursal Kjarvalsstaða í mars 1987 og fór síðan til Berlínar í eitt ár, millilenti í nokkra mánuði á Íslandi til að fæða fyrsta barn mitt Mónu og fór síðan til Cleveland í Bandaríkjunum. Ég starfaði þar sem myndlistarmaður og tók þátt í sýningum í virtum galleríum auk þess að starfa við gallerí og söfn sem sýningarhönnuður og aðstoðarmaður við uppsetningar á sýningum.

Ég flutti síðan aftur til Íslands árið 1992 en þá var ég búin að dvelja 5 ár í Bandaríkjunum. Þá byrjaði ég að reka mitt fyrsta fyrirtæki RÝMI, myndmenntaskóla, verkstæði, gallerí, en hann var starfræktur í Listhúsinu í Laugardal og stóð fyrir fjölbreyttum kvöld-, dag- og helgarnámskeiðum. Rými stóð að námskeiðum í teikningu fyrir byrjendur og lengra komna, módelteikningu, skúlptúr, glerlist, ýmis námskeið í málun auk námskeiða í kvikmyndagerð, hugmyndafræði o.fl.og stóð ég m.a. fyrir fyrstu námskeiðunum hér á landi í tölvugrafík (í samvinnu við Nýherja). Nemendur á námskeiðunum í Rými voru um 250 talsins og má fullyrða að þessi tilraun með einkarekinn myndlistarskóla hafi gengið mjög vel. Ég kenndi sjálf á mörgum námskeiðum og réði auk þess 6 myndlistarmenn til að kenna á hinum ýmsu námskeiðum.

Útþráin varð þó til þess að ég flutti aftur til Þýskalands vorið 1993 og byrjaði að vinna sem ljósmyndari á dagblaði meðfram myndlistinni og byrjaði síðan ári síðar að reka eigin auglýsingastofu. Auk þess að reka lista- og auglýsingastofuna Kunst & Werbung - Art & Advertising International frá 1995-2000 tók ég þátt í sýningum, hélt einkasýningar og sýndi einnig verk annarra listamanna í mínu eigin galleríi sem starfrækt var í Kassel á árunum 1997-1998. Ég var valin til að hanna borgarminnisvarða, vann til verðlauna í samkeppni myndlistarmanna og sat seinna í dómnefnd samkeppninnar. Það sem vakti fyrir mér með því að stofna fyrirtæki mitt Kunst & Werbung var að tengja saman hugtökin list og auglýsingar og bjóða upp á hönnun með listrænan metnað. Þjónustusvið mitt var almenn auglýsingahönnun, þjónusta við prentsmiðjur og dagblöð, ljósmyndun, merkingar, ráðgjöf, Corporate -Design, þróun fyrirtækjanafna- og hugmyndafræði auk myndskreytinga. Viðskiptavinir Kunst & Werbung samanstóðu af einkafyrirtækjum, hlutafélögum, samtökum, bæjarfélögum og stofnunum. Samtals 150 fyrirtæki voru fastir viðskiptavinir mínir. Ég hafði að jafnaði 2-3 aðstoðarmenn (Praktikanten) sem jafnframt voru í læri hjá mér meðfram námi í fjölmiðlafræði og grafískri hönnun.

Ég flutti heim til Íslands í september árið 2000 eftir samanlagða 17 ára búsetu við nám og störf erlendis. Fyrirtæki mitt sem ég stofnaði þegar að ég kom heim nefndi ég ART-AD. Art & Advertising International er sjálfstætt framhald af fyrirtæki Kunst & Werbung í Þýskalandi og rak ég fyrirtækið út frá sömu hugmyndafræði og í Þýskalandi. Stærstu verkefni mín eru í hugmyndaþróun, almennri auglýsingagerð og myndskreytingum. Ástæða þess að ég flutti heim var gamla góða heimþráin og auk þess vildi ég að börnin mín yrðu Íslendingar. Börnin mín eru; Móna fædd 1988 og Daníel Tryggvi fæddur 1998. Eftir heimkomuna vann ég að útlitsmótun Fréttablaðsins hannaði sérblöð, hausa og auglýsingar auk þess að vinna að hugmyndaþróun varðandi framsetningar, nafngiftir o.fl. ART-AD starfaði sem sjálfstætt hönnunarfyrirtæki fyrir blaðið og viðskiptavini þess um eins og hálfs árs skeið.

Meðal annarra viðskiptavina ART-AD má nefna: Gott Fólk, McCann Ericsson (hugmyndaþróun), Latabæ, (hugmyndaþróun fyrir vef Búnaðarbanka Íslands Krakkabanki.is), Sölka bókaforlag (myndskreytingar í bókina Furðudýr í íslenskum þjóðsögum, gefin út haustið 2002 á 3 málum), DP lögmenn, Pappír hf. auk fjölda annarra fyrirtækja og samtaka. Auk þess kenndi ég hugmyndafræði og skissugerð við hönnunardeild Listaháskóla Íslands.

Þar sem ég byrjaði að hafa mikinn áhuga á öllu sem viðkemur náttúru Íslands og umhverfismálum eftir heimkomuna, óx áhugi minn á villtum íslenskum jurtum og möguleikunum sem búa í náttúrunni, fyrir markaðssetningu og útflutning vara. Í augum útlendinga er Ísland fyrst og fremst „hreina landið í norðri“ og rómað fyrir ósnortna náttúru. Þar sem ég var á fyrstu árum mínum hér að tengjast landinu á ný, var þessi jurtaáhugi ákaflega sterkur. Ég var einnig að vinna markaðsstarf fyrir íslenska framleiðandur og sem skipulagsstjóri fyrir Evrópuverkefnið Rural Business Women Project (Fósturlandsins Freyjur) og sá mikla framtíðarmöguleika í framleiðslu á náttúrvörum. Ég fékk í framhaldinu mikinn áhuga á að gera gagnagrunn um jurtir og umhverfismál, þróa vef sem myndi auðvelda skilning á náttúrunni og gera umhverfisvænar lausnir á öllum sviðum sýnilegri.

Segja má að hugmynd að náttúruvef væri eitthvað sem að ég sem listamaður og hugmyndafræðingur í markaðsstarfi ætti að láta öðrum eftir, þar sem ég væri að gera aðra hluti en standa sjálf að vefjum. Ýtti ég hugmyndinni því frá mér um langt skeið. En hún lét mig einfaldlega ekki í friði, og mér var það æ ljósara, að þörf væri fyrir þennan vef, og að ég væri jafnvel besta manneskjan til þess að byggja hann upp. Ástæðan er annars vegar sú að sérfræðingar í hinum ýmsu geirum eru of uppteknir hver á sínu sérsviði og vinna því ekki saman að lausnum né vinna þeir í samvinnu við viðskiptalífið. Fyrirtækin eru einnig hver að vinna fyrir sig svo að ég sá nauðsyn á að gera vef sem að tengir saman hugtök, upplýsingar, vottanir og framboð á markaði.

Þar sem ég hef gífurlega reynslu í uppbyggingu og framkvæmd hugmynda, langa reynslu af rekstri og listræna og tæknilega kunnáttu til að útfæra hugmyndina var ekkert sem að gat stöðvað mig. Ég byrjaði á að fara á Brautargengisnámskeið til að skrifa viðskiptaáætlun og sótti í framhaldinu um fjöldann allan af styrkjum. Með aðstoð góðra ráðgjafa tókst mér að fá 11 fjárfesta til liðs við mig en þeir komu með það fjármagn sem þurfti til að vinna verkið. Á rúmum fimm árum hef ég byggt upp gríðarstórt tengslanet sem umlykur alla þá aðila sem eitthvað mega sín á sviði umhverfis, náttúru og viðskipta og hef safnað í kringum mig frábæru teymi. Gríðarlegur velvilji og ahugi er á framgangi umhverfismála á Íslandi, miklu meiri en flestir gera sér grein fyrir.

Fyritækið Náttúran er ehf. var stofnað haustið 2006 og fór framleiðsla Náttúrunnar.is þá strax af stað og opnaði umhverfisráðherra vefinn Náttúran.is á Degi umhverfisins þ. 25. apríl á árið 2007. Síðan þá hef ég og samstarfsfólk mitt unnið að því að fullkomna vefinn og vinna honum brautargengis.

Birt:
Jan. 18, 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Menntun, reynsla og fyrri störf Guðrúnar A. Tryggvadóttur“, Náttúran.is: Jan. 18, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/01/18/menntun-reynsla-og-fyrri-storf-guorunar-tryggvadot/ [Skoðað:Dec. 2, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Aug. 22, 2014

Messages: