Að undanförnu hefur umræðan um Hengilssvæðið heldur betur lifnað. Yfirlýsingar stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur um nýja og stóraukna umhverfisvirðingarstefnu fyrirtækisins birtist í viðtali á NFS í fyrradag.

Þar kemur fram að háspennulínur fari óskaplega í taugarnar á Guðlaugi Þór Þórðarsyni (gera má ráð fyrir að flestir séu honum sammála), enda leiði OR alla sína orku um jarðstreng til Landsnets1). Subbulegt útlit heiðarinnar nú er víst aðeins tímabundið ástand og segir Guðlaugur að hápunktur framkvæmda á heiðinni sé ekki dæmigert fyrir útlit að framkvæmdum loknum. Í sama viðtali er Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landverndar við hlið Guðlaugs Þórs og svarar fyrir það af hverju Landvernd hafi ekki haft neitt út á framkvæmdir að setja og hvort að virkjunin á heiðinni hafi fengið að dafna í skjóli Kárahnjúkavirkjunar og án nokkurar gagnrýni. Bergur segir að Landvernd hafi síður en svo á móti öllum virkjunum og hafi ekki lagst gegn Hellisheiðarvirkjun, en þó sé varhugavert að fórna Ölkelduhálsi fyrir nýja virkjun. Þar sé útivistarsvæði með einstakri náttúrufegurð og leggur hann áherslu á að við höfum alveg tíma til að bíða eftir að fá niðurstöður úr djúpborunarrannsóknum þó að biðin vari 10-15 ár. Við ættum frekar að nýta betur þau svæði sem þegar hafa verið undirlögð og yfirtekin. Ölkeldusvæðið getur því vel beðið enda væri synd að fórna svæðinu af einskærri fljótfærni. Sjá viðtalið á NFS sálugu.
1)Fyritækið Landsnet hf. sér um að koma orku frá OR á leiðarenda en hefur engin áform um að leiða orkuna í jörðu þrátt fyrir að tæknin leyfi það. Fyrirtækið undirbýr nú framkvæmdir við háspennulínur frá „fyrirhuguðum virkjunum á Ölkelduhálsi og við Hverahlíð“, og frá Hellisheiðarvirkjun í Sveitarfélaginu Ölfusi, að Geithálsi í Reykjavík og Straumsvík í Hafnarfirði (v. fyrirhugaðrar stækkunar!). Ath. að hægt er að skila inn athugasemdum um áformaðar háspennalínur frá Hellisheiðarvirkjun fyrir 27. þessa mánaðar. Sjá nánar á vef Landsnets.
Sjá eldri grein hér
Myndin er tekin frá Kþrgili við Ölkelduháls yfir til Þingvallavatns þ. 26. 08. 2006. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Sept. 23, 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Háspennulínur fara óskaplega í taugarnar á Guðlaugi Þór“, Náttúran.is: Sept. 23, 2006 URL: http://natturan.is/d/2007/03/19/haspennulinur_gudlaugit/ [Skoðað:Oct. 4, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 19, 2007
breytt: April 27, 2007

Messages: