Flest ástfangin hjón hafa á einhverjum tímapunkti löngun til að eignast börn. En það er ekki alltaf jafn auðvelt. Við hjónin höfðum misst fóstur og höfðum spurst fyrir um ættleiðingar frá Kína, en okkur var tjáð hjá íslenskri ættleiðingu að samkvæmt kínverskum reglum værum við orðin of gömul til að ættleiða börn. Ég var 43 ára en maðurinn minn 55 ára og ég hefði einfaldlega þurft að skilja við manninn minn til þess að eiga einhverja  möguleika á ættleiðingu.

Þannig að þegar ég varð ófrísk eina ferðina enn ákvað læknirninn minn, hún Ragnheiður Ingibjörg Bjarnadóttir, og ljósmóðirin Eva Ásrún Albertsdóttir að í þetta skiptið skyldi þetta ganga. Og kraftaverkið gerðist. Eftir að hafa verið hálfslöpp alla meðgönguna og gubbandi yfir vaskinum með brúna bauga undir augunum, fór ég í keisaraskurð og okkur fæddist þessi yndislegi, hrausti og ótrúlega vel skapaði sonur.

Faðirinn var viðstaddur keisaraskurðinn og hrópaði upp yfir sig af gleði þegar hann sá stráksa. Ég mátti ekki hreyfa mig, lá eins og skata með mænudeyfingu á skurðarborðinu, en þegar ég heyrði ánægjuhljóðin í manninum mínum brosti ég og vissi að allt var í lagi.

Drengurinn  fékk nafnið Sigurður Reynir Valgeirsson og er kallaður Siggi.

Síðan drengurinn kom í heiminn hefur líf okkar tekið algjörum stakkaskiptum. Nú er það litli pjakkurinn sem stjórnar því hvenær við sofum og hvenær eða hvort við gluggum í bók. Pabbinn er orðinn sérfræðingur í því að blanda þurrmjólk, vegna þess að eftir keisaraskurð  dugar brjóstamjólkin yfirleitt aldrei ein og sér. Mamman er sú sem huggar og veitir öryggistilfinningu.  Við foreldrarnir erum samt svo hamingjusöm í þessu nýja foreldrahlutverki að við svífum um húsið og snertum varla jörðina og svei mér þá ef það hefur ekki tognað úr manninum mínum um nokkra sentimetra. Hann er svo afskaplega hreykinn og stoltur af stráknum.

Auðvitað finnum við samt fyrir aldrinum. Við sofum eins og trjádrumbar og eigum erfitt með að vakna á næturnar þegar strákurinn kallar. Við finnum líka fyrir eymslum í höndum og baki eftir að hafa haldið á pjakknum í nokkra klukkutíma. En svona er þetta bara. Við leggjumst örmagna til svefns á hverju kvöldi með hamingjubros á andlitinu og hugsum í forundran: „Kæri Guð, þakka þér fyrir drenginn en hvernig í ósköpunum tókst okkur að búa til svona fallegt barn“?

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir.

Birt:
Jan. 31, 2010
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Að verða foreldri á fimmtugsaldri“, Náttúran.is: Jan. 31, 2010 URL: http://natturan.is/d/2010/01/12/ad-verda-foreldri-fimmtugsaldri/ [Skoðað:Nov. 30, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Jan. 12, 2010
breytt: Jan. 31, 2010

Messages: