Fyrir kosningar 2007 samþykkti og auglýsti Samfylkingin stefnu í umhverfismálum – Fagra Ísland – sem ófáir túlkuðu sem svo að ekki yrði ráðist í frekari stóriðju á Íslandi nema að undangengnum rannsóknum og stefnumótun í samræmi við rammaáætlun um náttúruvernd. Orðrétt segir í stefnunni að Samfylkingin vilji „slá ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð“. Margir kjósendur töldu því að atkvæði greitt Samfylkingunni jafngilti atkvæði greiddu náttúruvernd.

Eftir kosningar hafa talsmenn Samfylkingarinnar runnið undan, vísað í stjórnarsáttmálann við Sjálfstæðisflokkinn og sagt að í raun hafi ekki verið möguleiki á að – ja – efna þau loforð sem flokkurinn gaf fyrir kosningar. Þess vegna hafi ekki verið möguleiki á að stöðva álver í Helguvík. Staðreyndin er hins vegar sú að tilskipun Evrópusambandsins um mat á umhverfisáhrifum kveður skýrt á um að allar upplýsingar skuli liggja fyrir í mati á umhverfisáhrifum tiltekinnar framkvæmdar, áður en leyfi er veitt til framkvæmdarinnar.

Sú nauðsynlega „heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands“ sem Samfylkingin sagðist vilja tryggja fyrir síðustu kosningar liggur ekki fyrir. Fyrirhugað álver Norðuráls í Helguvík kallar eftir virkjunum við Krísuvík (Austurengjar, Seltún, Sandfell og Trölladyngju) og á Reykjanesi. Alls er óvíst hvar Norðurál muni bera niður í orkuleit sinni fyrir 250 þúsund tonna eða jafnvel stærra álveri í Helguvík og því var full lagaheimild fyrir umhverfisráðherra að kalla eftir slíkum upplýsingum í heildstæðu mati. Slíkur úrskurður hefði verið í samræmi við áðurnefnda tilskipun Evrópusambandsins sem innleidd var í íslenskan rétt með lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Fyrir liggja ákvarðanir Rio Tinto Alcans um að auka framleiðslu álversins í Straumsvík um 45 þúsund tonn, áform Alcoa um a.m.k. 250 þúsund tonna álver á Bakka við Húsavík, auk tveggja hreinkísilverksmiðja í Þorlákshöfn. Í vorskýrslu fjármálaráðherra frá 15. apríl s.l. er gert ráð fyrir virkjunum til þess arna upp á allt að 1350 MW eða um það bil tveimur Kárahnjúkavirkjunum. Það er mjög svipuð tala og iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins hafði á prjónunum fyrir alþingiskosningar í fyrra.

Þann 6. febrúar 2006 sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í ræðu á Alþingi: „Innan kvótans [íslenska ákvæðisins] rúmast annaðhvort stækkun [í Straumsvík] eða eitt álver fram til ársins 2012 og er ekki rétt að segja það þá skýrt og vera ekki að láta menn gæla við þá hugsun að hér geti komið einhverjar framkvæmdir sem hvorki standast þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum gert né heldur þau markmið sem við höfum í hagstjórn?“ Á morgunvaktinni 23. apríl 2008 sagði Ingibjörg Sólrún hins vegar að hún vissi ekki hversu mörg álver rúmist innan skuldbindinga Íslands.

Í fyrrnefndri vorskýrslu fjármálaráðherra segir að ekki sé „á þessu stigi ljóst hvort heimildir Íslands til losunar gróðurhúsa¬lofttegunda muni rúma þau áform um aukna álframleiðslu sem eru á teikniborðinu. Takmarkanir sem leiðir af Kyoto-bókuninni gilda fyrir tímabilið 2008–2012 að meðaltali og áformin rúmast innan þeirra“. Það þýðir að 1. janúar 2013 færi Ísland inn í næsta skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar með árlega losun á koltvísýringi er næmi vel á þriðju milljón tonna í stað 1,6 milljón tonna líkt og meðaltal hins íslenska ákvæðis kveður á um.

Þessi túlkun fjármálaráðherra og ný leg ummæli utanríkisráðherra benda til þess að Samfylkingin hafi öðlast nýjan og allt annan skilning á skuldbindingum Íslands en formaður hennar kynnti fyrir kjósendum í aðdraganda Alþingiskosninga; að markmiðið nú í samningum um framhald Kyoto-bókunarinnar sé að heimildir Íslands til losunar gróðurhúsalofttegunda muni rúma öll þau álversáform sem fjármálaráðherra hefur kynnt til bjargar íslensku krónunni.

Framundan eru samningaviðræður milli ríkisstjórnarflokkana um hver skuli vera loftslagsstefna Íslands, heima og heiman. Ef Samfylkingin hopar verður Fagra Ísland – umhverfisstefna Samfylkingarinnar – hjóm eitt. Það hlýtur að vera ósk allra þeirra sem unna íslenskri náttúru að Samfylkingin fylgi eftir þeirri stefnu sem hún boðaði í kosningabaráttunni fyrir ári af fullri einurð og öðlist þannig trúverðugleika.

Sjá nánar um umhverfisstefnu Samfylkingarinn „Fagra Ísland“

Birt:
May 9, 2008
Höfundur:
Árni Finnsson
Uppruni:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Samfylkingin og umhverfisvernd“, Náttúran.is: May 9, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/05/09/samfylkingin-og-umhverfisvernd/ [Skoðað:Feb. 5, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: