Orkufyrirtæki í Evrópu hafa hætt við fjárfestingar að verðmæti margir milljarðar evra sökum fyrirætlana Evrópusambandsins um að þeim verði gert að festa kaup á losunarheimildum vegna starfsemi sinnar frá og með árinu 2013. Þetta hefur Reuters fréttastofan eftir Johannes Teyssen, forstjóra þþska orkurisans E.ON.

Teyssen lét þessi orð falla um leið og hann kynnti skýrslu Heimsorkuráðsins (World Energy Council) um veikleika Evrópu í orkumálum. "Mörgum fjárfestingarverkefnum hefur verið aflýst á síðustu tveimur mánuðum -- það er erfitt að festa tölu á hve mörgum er verið að aflýsa núna," segði hann á fréttamannafundi síðastliðinn miðvikudag.

Fyrirheit höfðu, að sögn Teyssens, verið gefin um að orkuiðnaðurinn fengi aðlögunartíma áður en hann gengist undir kaup á losunarheimildum, en fær nú þau skilaboð að hann þurfi að kaupa 100% heimilda á markaði frá árinu 2013.

Teyssen sagðist vita um að minnsta kosti fjögur orkuver í Þýskalandi einu sem hefði verið aflýst, meðal annars vegna kostnaðarins sem hlýst af kaupum á losunarheimildum. Hann viðurkenndi þó að aðrir þættir hefðu haft áhrif á ákvarðanatöku, svo sem hækkandi fjárfestingarkostnaður.

Heimsorkuráðið lýsti þrátt fyrir þetta almennum stuðningi við áætlanir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í orku- og loftslagsmálum sem kynntar voru í síðasta mánuði. Það hvatti þó til þess að kjarnorka yrði skoðuð af meiri alvöru, en ESB hefur veigrað sér við að taka afstöðu til hennar sökum ólíkrar afstöðu aðildarlanda.

Að sögn Teyssens er stærsti þröskuldurinn í vegi fyrir nútímavæðingu evrópska orkukerfisins hægagangur við að öðlast skipulagsleyfi fyrir byggingu gaspípna og háspennulína. Ein helsta niðurstaða skýrslunnar sem hann kynnti var að Evrópa væri um of háð innfluttri orku og berskjaldaðri gagnvart orkukreppu en nokkru sinni síðan á 8. áratugnum.

Grein og mynd: Viðskiptablaðið.
Myndtexti: Forstjóri E.ON segir orkufyrirtæki nú hætta unnvörpum við fjárfestingar vegna fyrirsjáanlegs kostnaðar við kaup á losunarheimildum eftir 2013. Hann viðurkenndi einnig að aðrar ástæður, svo sem hár fjárfestingarkostnaður, lægju að baki.

Birt:
Feb. 12, 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Fjárfestingar afturkallaðar vegna losunarheimilda“, Náttúran.is: Feb. 12, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/02/12/fjarfestingar-afturkallaoar-vegna-losunarheimilda/ [Skoðað:Aug. 5, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: