Skífa sem sýnir hvernig tímatal og mánaðarheiti í nútíð og hátíð skarast. Grafík Guðrún Tryggvadóttir.Í dag er jafndægur að vori, þ.e. nóttin er jafnlöng deginum. Í Riti Björns Halldórsson Sauðlauksdal segir; „Martíus, eða jafndægramánuður ... nú er vertíð við sjó og vorið byrjar“. Í tilefni jafndægurs að vori og til að tengja okkur náttúrunni í vorbyrjun er tilvalið að rifja upp gamla Bændadagatalið, en svo segir í 6. kafla Ætigarðsins - handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur: 

Bændaalmanakið:

Safnarinn og ræktandinn fylgist stöðugt með veðráttunni, birtunni og hitafarinu og lifir þannig með árstíðunum. Í okkar almanaki er fátt sem minnir á gróðurfar eða fellur að lífsmunstri okkar, fremur að við höfum aðlagað lífsmunstrið að almanakinu þó það ætti að vera á hinn veginn. Almanakið fylgir ekki tungli og daga fjöldi mánaðanna er tilviljanakenndur, eiginlega hálfgert klúður. Mánaðanöfnin janúar, mars, maí og júní koma úr fornri goðafræði, svo sú tilfinning að það eigi að skrifa þau með stórum staf er ekki út í hött. Febrúar táknar trúlega hreinsun og var síðasti mánuðurinn í eldra tímatali Rómverja. Apríl á sér ekki augljósa skýringu en kann að merkja – að opna eða gróandi jörð. Keisararnir Júlíus Caesar og Ágústus áttu báðir þá ósk heitasta að verða teknir í guðatölu og fengu því framgengt að mánuðirnir júlí og ágúst væru nefndir eftir sér. Þeir gættu þess að sínir mánuðir teldu 31 dag. September, október, nóvember og desember þýða 7., 8., 9. og 10. mánuður ársins, en það eru þeir ekki, heldur eru nöfnin leifar frá eldra tímatali.

Þessi nöfn var fyrst farið að nota hér á landi á 18. öld, þegar breytt var frá júlíanska tímatalinu til hins gregoríanska. Tilraun til að fella þetta nýja almanak að íslenskum atvinnuháttum gerðu bæði Björn í Sauðlauksdal og séra Bjarni Arngrímsson á Melum er reyndi að gera þetta aðgengilegt í lestrarkveri handa börnum sem lengi var notað. Januarius, eða miðsvetrarmánuður ... hann hálfnar veturinn. Fyrra part þessa mánaðar er brundtími sauðfjár. Februarius, eða föstuinngangsmánuður ... þá búa karlmenn sig til fiskveiða á verstöðum. Martíus, eða jafndægramánuður ... nú er vertíð við sjó og vorið byrjar. Aprílio, eða sumarmánuður ... þá byrjar sumarmisseri, lengir dag og minnka oft frosthörkur. Majus, eða fardagamánuður ... þá er unnið á túnum, sáð til matar, sauðburður hefst og fuglar verpa. Júníus, eða náttleysumánuður ... þá er lengstur dagur, nú er plantað káli, rúið sauðfé, lömbum fært frá og rekið á afrétt. Júlíus, eða miðsumarsmánuður ... þá eru dregin að búföng, flutt í sel, farið á grasafjall og byrjaður sláttur. Augustus, eða heyannamánuður ... þá standa heyannir, hirt tún og yrktar engjar. September, eða aðdráttarmánuður ... þá enda heyannir, en byrjast haustið, gjörð fjallskil, hyrtar matjurtir. Oktober, eða slátrunarmánuður ... þá byrjar vetrar misserið, nú er færð mykja á tún, slátrað búfé og börn byrja stöfun. Nóvember, eða ríðtíðarmánuður ... þá er sest að við ullar vinnu og hyrtur búsmali. Desember, eða skammdegismánuður ... hann endar árið, þá er stystur dagur og vökur lengstar.

Grafík: Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.


  Tengdir viðburðir

 • Jafndægur að vori

  Location
  Not located
  Start
  Thursday 20. March 2014 00:00
  End
  Friday 21. March 2014 00:00
Birt:
March 20, 2016
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Í dag er jafndægur að vori“, Náttúran.is: March 20, 2016 URL: http://natturan.is/d/2009/03/20/i-dag-er-jafndaegur-ao-vori/ [Skoðað:Feb. 3, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 20, 2009
breytt: March 20, 2016

Messages: