Náttúruverndarsamtök Íslands undirbúa nú að kæra framkvæmdaleyfið fyrir Heiðmörk.

Bæði Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands undirbúa nú að kæra framkvæmdaleyfið fyrir Heiðmörk. Samtökin segja leyfið ekki í samræmi við aðalskipulag. Þá hafa menn frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur skoðað trén sem fjarlægð voru úr Heiðmörkinni og segja að þau virðist ónýt.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtakanna, segir mikilvægt að Reykjavíkurborg fari að skipulagslögum og vinni mál í réttri röð. Skipulagsstjóri hafi bent á að áður en framkvæmdaleyfi sé gefið út verði að breyta aðalskipulagi. Það hafi þó ekki verið gert.

Landvernd undirbýr einnig að kæra leyfisveitinguna til úrskurðarnefndar Skipulags- og byggingamála. Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segir vatnslögnina ekki vera inni á aðalskipulagi þeirra sveitarfélaga sem að framkvæmdinni standa.

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur kært Kópavogsbæ og Klæðningu fyrir jarðraskið og vill opinbera rannsókn. Lögreglan í Reykjavík hefur ekki ákveðið hvort málið verði rannsakað. Reykjavíkurborg gaf út framkvæmdaleyfi eftir að kæran barst. Skógræktarfélagið og fleiri fara á morgun ásamt framkvæmdaraðilum um það svæði þar sem til stendur að grafa.

Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélagsins, segir um 1.000 tré og plöntur hafi verið fjarlægð. 30 til 50 tré voru flutt á svæði Klæðningar. Helgi segist ekki hafa fengið svör frá framkvæmdaaðilum um hvar hin trén séu, hugsanlega hafi þau verið urðuð. Trén sem flutt voru, verða skoðuð betur næstu daga en í fljótu bragði virðast þau illa farin, segir Helgi.

Birt:
March 12, 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Heiðmerkurmálið - kæra undirbúin“, Náttúran.is: March 12, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/03/22/heidmork_kaera_undirbuin/ [Skoðað:Feb. 4, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 22, 2007
breytt: May 1, 2007

Messages: