Við Eyjafjörð eru veðursælar sveitir sem vel henta til kornræktar. Landnemar svæðisins hafa líklega látið verða sitt fyrsta verk að brjóta akra og sá korni til matar. Um þetta vitna frásagnir Íslendingasagna og gömul örnefni sem tengjast akuryrkju. Mikilvægi kornræktarinnar má m.a. ráða af frásögnum Víga-Glúmssögu er segir frá akrinum Vitaðsgjafa í landi Þverár í Eyjafirði. Þar segir “En þau gæði fylgdu mest Þverárlandi, það var akur er kallaður var Vitaðsgjafi því að hann varð aldregi ófrær”. Miklu hefur munað að fá árvisst sáðkorn enda fór svo að deilur um akurinn urðu upphaf mannvíga og langvinnra deilna milli Eyfirðinga á landnámsöld.

Á landnámsöld var veður hagstætt til akuryrkju en með kólnandi veðri lagðist kornræktin að mestu af í landinu. Þrátt fyrir einhverjar tilraunir til þess að endurvekja kornrækt tókst það ekki fyrr en veðurfar fór að hlýna aftur á 20. öldinni. Uppúr 1920 hófust tilraunir með kornrækt og í kjölfarið var korn ræktað nokkuð víða á landinu. Meðal þessara staða var bærinn Klauf, nú í Eyjafjarðarsveit. Kaupfélag Eyfirðinga keypti Klauf vorið 1936 með það fyrir augum að koma á fót kornræktarbúi. Kornræktin hófst vorið 1937 og stóð til ársins 1943. Sáð var höfrum og byggi og reyndist uppskeran misjöfn. Hlutverk búsins var m.a. að kynna kornræktina fyrir Eyfirðingum og voru ungir menn teknir til náms á búinu. Korn var ræktað víðar fram yfir 1960 en kulda- og harðindaár bundu enda á það ævintþri.

Kornrækt á Íslandi lá síðan niðri utan Sámsstaða í Fljótshlið og Þorvaldseyrar undir Eyjafjöllum fram yfir 1980 en þá hófst í Landeyjum kornræktarbylgjan sem nú hefur breiðst um landið. Barst kornræktin norður í Eyjafjörð árið 1990 þegar hjónin í Grænuhlíð, Óskar og María ásamt bræðrunum, Garðari og Aðalsteini í Garði keyptu þreskivél og hófu kornrækt í félagi. Þá hóf Benedikt á Hrafnagili einnig kornrækt af miklum myndarskap. Fjölmargir fylgdu í kjölfarið og nú eru kornbændur á Eyjafjarðarsvæðinu 60 talsins og rækta þeir korn á 400-500 hekturum.

Mydnin er af Klauf í Eyjafjarðarsveit. 

Birt:
July 24, 2007
Höfundur:
Ingvar Björnsson
Tilvitnun:
Ingvar Björnsson „Kornrækt í Eyjafirði“, Náttúran.is: July 24, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/07/24/kornrkt-eyjafiri/ [Skoðað:Jan. 29, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: