Illugi Gunnarsson benti á það í Morgunblaðinu í gær að umhverfisráðherra hefur nú til meðferðar stjórnsýslukæru Náttúruverndarsamtaka Íslands þar sem þess er m.a. krafist að fjallað verði með heildstæðum hætti um orkuflutninga og orkuöflun fyrir álver í Helguvík. Hann gerir athugasemdir við seinagang ráðuneytisins nefnir ekkert af því sem knýr á um að umhverfisráðherra vandi vel til verka.
Álver Century Alumium (Norðuráls) í Helguvík á að framleiða 360 þúsund tonn á ári. Það er 14 þúsund tonnum meira en þau 346 þúsund tonn sem Alcoa Reyðarál framleiðir nú á ári með raforku frá Kárahnjúkavirkjun sem er 690 MW. Gera verður ráð fyrir að álver Century Aluminum þarfnist virkjana sem nema um 650 MW af raforku.

Hvaðan á orkan að koma?

Virkjanlegt afl á Reykjanesi er talið vera á bilinu 190 til 415 MW eftir því hvort hægt er að bæta við 100 MW við Reykjanesvirkjun og því hvort unnt verður að ráðast í Bitruvirkjun. Gangi þau áform eftir vantar enn að minnsta kosti 205 – 235 MW til að hægt sé að framleiða 360 þúsund tonn af áli á ári. Hvaðan gæti sú orka komið?
Það var meginatriði í stjórnsýslukæru Náttúruverndarsamtaka Íslands, dags. 24. apríl 2009 og kæru samtakanna vegna framkvæmda á Húsavík, dags, 18. mars 2008, að mat á umhverfisáhrifum verði að leiða í ljós öll umhverfisáhrif framkvæmda og tendrar starfsemi.
Mjög takmarkaðar upplýsingar upplýsingar liggja fyrir um hvar skuli virkja og/eða hvaðan skuli flytja orku til að knýja 360 þúsund tonna álver í Helguvík. Framkvæmdaraðilar láta skeika sköpuðu á meðan ekki liggur fyrir úrskurður um heildstætt mat.

Nóg komið af vondri stjórnsýslu í anda ný frjálshyggju.

Kaarlo Jännäri komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni fyrir ríkisstjórn Íslands um reglur og eftirlit með bankastarfsemi að “bad banking” hafi verið meginorsök bankahrunsins hér. Má vísast kenna um slæmri stjórnsýslu við einkavæðingu bankanna, slakri lagasetningu og eftirfylgni með setningu reglugerða um starfsemi fjármálastofnana. Ég minni á þátt Illuga Gunnarssonar í því máli og bendi á að slík vinnubrögð mega ekki einkenna mat á umhverfisáhrifum álvers í Helguvík eða stjórnsýslu i umhverfismálum almennt. Brýnt er allar upplýsingar verða að liggja fyrir um hvaða línulagnir og orkuframkvæmdir er að ræða, þau umhverfisáhrif sem af hljótast og flutningi á orku til álversins í Helguvík.

Birt:
Sept. 19, 2009
Höfundur:
Árni Finnsson
Uppruni:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Árni Finnsson svarar Illuga Gunnarssyni“, Náttúran.is: Sept. 19, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/09/19/arni-finnsson-svarar-illuga-gunnarssyni/ [Skoðað:Feb. 5, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Sept. 20, 2009

Messages: