Hið gamalgróna fyrirtæki Ísafoldarprentsmiðja hlaut 15. nóvember síðastliðinn vottun norræna umhverfismerkisins Svansins. Þetta þýðir að búið er að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif frá starfsemi fyrirtækisins svo að þau eru nú undir viðmiðunarkröfum Svansins.  Ísafoldarprentsmiðja er tíunda íslenska fyrirtækið sem hlýtur slíka vottun. Ísafoldarprentsmiðja er fjórða prentsmiðjan á Íslandi til að uppfylla strangar Svansins um lágmörkun á neikvæðum umhverfisáhrifum og fyrsta dagblaðaprentsmiðjan. Hinar prentsmiðjurnar eru Hjá Guðjón Ó, Prentsmiðjan Oddi og Svansprent. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, afhenti leyfið í húsi stofnunarinnar mánudaginn 28. nóvember.

„Við erum ákaflega glöð með að Ísafoldarprentsmiðja sé komin í Svanshópinn. Það er afar mikilvægt að fá sem flest fyrirtæki með í þessa vinnu enda hafa fyrirtæki sem hafa undirgengist Svansvottun lágmarkað áhrif sín á umhverfið. Öflug fyrirtæki með Svansvottun koma skilaboðunum til neytenda um að þeirra val skipti höfuðmáli. Því fleiri sem velja svansmerktar vörur því meiri umhverfislegum árangri náum ið til hagsbóta fyrir umhverfið og heilsuna okkar. Ég er viss um að viðskiptavinir Ísafoldarprentsmiðju muni taka þessum mikilvæga áfanga fagnandi.“  Segir Kristín Linda.

Ísafoldarprentsmiðja er önnur stærsta prentsmiðja landsins og sú elsta starfandi.  Prentsmiðjan var stofnuð í júní 1877 en það var enginn annar en Björn Jónsson faðir Sveins Björnssonar fyrsta forseta lýðveldisins sem setti prentsmiðuna á fót til að prenta blað sitt Ísafold.  Ísafoldarprentsmiðja prentar meðal annars Fréttablaðið og er því fyrsta blaðaprentsmiðja landsins til að fá Svansvottun.

„Prentsmiðjan er að 75% hluta í eigu starfsmanna félagsins og hafa þeir unnið ötullega síðustu ár að því að gera prentvinnsluna umhverfisvænni og er Svansvottunin  ein af mikilvægustu  vörðunum á þeirri leið“ segir Kristþór Gunnarsson, framkvæmdastjóri og bætir við: „Það er markmið Ísafoldarprentsmiðju og starfsmanna hennar að nýta sem best það hráefni og þá orku sem notuð er við framleiðslu í prentsmiðjunni og lágmarka neikvæð áhrif starfseminnar á umhverfi hennar.  Við erum því mjög stolt af því að hafa hlotið Svansvottunina og hún hvetur okkur til að halda ótrauð áfram á sömu braut. “

Kröfur Svansins fyrir prentsmiðjur miðast að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá öllu prentferlinu, allt frá uppruna hráefna til meðhöndlun úrgangs.

* 95% efna til prentunar eða hreinsunar véla þurfa að vera umhverfismerktar eða sambærilegar
* Ekki má nota efni sem eru hættuleg umhverfinu eða heilsu manna
* Meðhöndlun efnaúrgangs þarf að vera ábyrg og almenn flokkun skýr
* Mikil áhersla er lögð á að lágmarka úrgangsmyndum og afskurð
* Í það minnsta 90% af þyngd Svansmerkts prentgrips skal vera umhverfismerktur pappír eða sambærilegur

Sjá viðmið Svansins fyrir prentverk.

Sjá þau fyrirtæki sem hafa Svansvottun hér á landi á Grænum síðum.

Sjá þá vöruflokka sem eru í boði af Svansvottuðum vörum hér á landi undir „Vörur/Vottað Svanurinn“ en í hverjum flokki finnur þú hvaða fyrirtæki flytja inn/dreifa viðkomandi vöruflokki og hvað vörurnar heita. Sé varan til nákvæmlega skráð til sölu eða kynningar er hana að finna í Svansbúðinni hér á Náttúrumarkaði. Samsvarandi flokkur er fyrir þjónustuflokkana undir „Þjónusta/Vottað Svanurinn“ hér á Grænum síðum.

Einnig er hægt að sjá gott yfirlit yfir aðilana hér á Græna Íslandskortinu í flokknum „Umhverfisvænar vörur“.

Birt:
Dec. 3, 2010
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Ísafoldarprentsmiðja hlýtur Svansvottun“, Náttúran.is: Dec. 3, 2010 URL: http://natturan.is/d/2010/12/03/isafoldarprentsmidja-hlytur-svansvottun/ [Skoðað:Feb. 7, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: