Framkvæmdum við Sundabraut verður slegið á frest, að minnsta kosti næstu fimm árin. Þess í stað mun ríkisstjórnin setja einn milljarð á ári næstu tíu árin í tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að öllum stórframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu verði slegið á frest, á fyrri hluta tilraunaverkefnisins.

„Við ætlum þetta sem tilraunaverkefni. Það er ekki þar með sagt að ekki verði gerðar umbætur á samgöngukerfinu á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu,“ segir Ögmundur.
Spurður hvort þetta eigi einnig við um hugmyndir um að setja Miklubraut í stokk eða koma á fót mislægum gatnamótum, segir hann ekki ljóst um hvaða verkefni verði að ræða.

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, hefur lengi talað fyrir lagningu Sundabrautar. Hann segir vissulega skiptar skoðanir á því að fresta henni, en eins og staðan sé nú í fjármálum ríkisins sé ekki hægt að gera nema eitt í einu. „Á árum áður var sérstaklega kallað eftir Sundabraut. Við sjáum hins vegar í skoðanakönnunum að það urðu umskipti eftir hrun og í stað þess að hún yrði efst á listanum tóku auknar almenningssamgöngur sæti hennar.“

Dagur og Ögmundur eru sammála um að efling almenningssamgangna sé kjaramál; nýlegar rannsóknir sýni að kostnaður við samgöngur sé næsthæsti útgjaldaliður heimila á eftir húsnæðismálum og hærri en matarinnkaup.

Birt:
Sept. 23, 2011
Höfundur:
kóp
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
kóp „Strætó í stað framkvæmda“, Náttúran.is: Sept. 23, 2011 URL: http://natturan.is/d/2011/09/23/straeto-i-stad-framkvaemda/ [Skoðað:Jan. 28, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: