Alþingi hefur samþykkt  frumvarp til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna fullgildingar Árósasamningsins, en hann fjallar um aðgang almennings að upplýsingum, þátttöku hans í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Að auki samþykkti Alþingi annað frumvarp til ýmissa breytinga á lögum sem eiga að tryggja að íslensk löggjöf samræmist samningnum. Lögin taka gildi 1. janúar nk.

Fullgilding Árósasamningsins var meðal þeirra markmiða sem ríkisstjórnin setti sér í stjórnarsáttmála við upphaf stjórnarsamstarfsins svo mikilvægum áfanga er náð með samþykkt Alþingis um helgina.

Árósasamningurinn var gerður í Árósum í Danmörku 25. júní 1998 og öðlaðist gildi 30. október 2001 en Ísland var meðal þeirra 38 ríkja sem undirrituðu hann auk Evrópusambandsins. Í ágúst árið 2010 voru aðilar hans 44 talsins og eftir fullgildingu Íslands nú á samningnum hafa öll norrænu ríkin fullgilt hann. Segja má að samningurinn tengi saman umhverfismál og mannréttindi þar sem hann byggist á því að fullnægjandi verndun umhverfisins sé nauðsynleg fyrir velferð mannsins og til að hann geti notið grundvallarmannréttinda. Sérhver kynslóð eigi rétt á því að lifa í umhverfi sem sé fullnægjandi fyrir heilsu og velferð hennar. Öllum beri skylda til að vernda og bæta umhverfið til hagsbóta fyrir núlifandi og komandi kynslóðir. Í þessu ljósi leggur samningurinn skyldur á ríkin að tryggja almenningi ákveðin réttindi svo að hann geti haft áhrif á ákvarðanatöku sem snertir umhverfið.

Hin nýsamþykktu lög fela meðal annars í sér að almenningur getur borið ákvarðanir sem varða mikilvæga umhverfishagsmuni undir sjálfstæða og óháða úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Meðal annars hafa lögin  í för með sér að allar stjórnvaldsákvarðanir er lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, verði kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar um leið og leyfisveitingavaldið færist til viðeigandi undirstofnana.

Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, sem nánar eru skilgreind lögunum, er með lögunum veitt aðild að kærum þegar um er að ræða tilteknar ákvarðana stjórnvalda. Þar er m.a. um að ræða ýmsar ákvarðanir Skipulagsstofnunar er varða mat á umhverfisáhrifum og ákvarðanir stjórnvalda er varða leyfi sem stjórnvöld veita er varða  mat á umhverfisáhrifum. Hið sama gengir um ákvarðanir Umhverfisstofnunar um að leyfa sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera og að markaðssetja erfðabreyttar lífverur eða vörur sem innihalda þær. Varðandi aðrar ákvarðanir sem kæranlegar eru til úrskurðarnefndarinnar þá gildir hin almenna regla  að þeir einir geta kært stjórnvaldsákvarðanir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á.

Birt:
Sept. 19, 2011
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Alþingi samþykkir fullgildingu Árósasamningsins “, Náttúran.is: Sept. 19, 2011 URL: http://natturan.is/d/2011/09/19/althingi-samthykkir-fullgildingu-arosasamningsins/ [Skoðað:June 5, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: