Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, veitti í dag í tilefni af Degi íslenskrar náttúru, Ragnari Axelssyni, Rax, ljósmyndara á Morgunblaðinu, fjölmiðlaverðlaun umhverfisráðuneytisins - Jarðarberið.

Tilnefndir voru:

  • Morgunblaðið fyrir upplýsandi og vandaða umfjöllun um áhrif loftslagsbreytinga á íslenska náttúru í greinarflokknum Hamskipti lífríkis og landslags. Greinarnar skrifuðu blaðamennirnir  Guðni Einarsson og Rúnar Pálmason en þeim til aðstoðar var Elín Esther Magnúsdóttir sem vann grafík, Sigurbjörg Arnarsdóttir og Ingólfur Þorsteinsson sem brutu flokkinn um og flestar ljósmyndir tóku Ómar Óskarsson og Ragnar Axelsson.
  • Ragnar Axelsson ljósmyndari fyrir að beina sjónum að náttúruvernd og samspili manns og náttúru í verkum sínum.
  • Steinunn Harðardóttir stjórnandi þáttarins Út um græna grundu á Rás 1 fyrir umfjöllun um íslenska náttúru, umhverfið og ferðamál.
  • Svavar Hávarðsson blaðamaður Fréttablaðsins fyrir ítarlega umfjöllun um mengun sem ógnar náttúru og fólki.

Í rökstuðningi dómnefndar segir:

Sá sem hlýtur Jarðarberið hefur verið óþreytandi við að sýna okkur náttúru Íslands á myndrænan hátt. Ragnar Axelsson ljósmyndari eða Rax, hefur sérstaklega beint sjónum að samspili manns og náttúru á langri starfsævi. Rax hefur bent á að náttúran er voldug en um leið viðkvæm. Og örlög manns og náttúru eru óaðskiljanleg. Það er því mikilvægt fyrir manninn að stíga varlega til jarðar með auðmýkt, ábyrgð og virðingu. Þessi sjónarmið Rax, nálgun hans við myndefnið og listræn framsetning hafa skipað honum í fremstu röð ljósmyndara á heimsvísu, gert náttúru Íslands sýnilega í fjölmiðlun og tækifæri til að tala sínu eigin máli.

Verðlaunagripurinn, sem hannaður er af Finni Arnari Arnarsyni, er krækiber en á því er lítið Ísland staðsett á berinu á sama stað og Ísland er staðsett á jarðarkúlunni og gerir það þannig að Jarðarberi.

Segir listamaðurinn sjálfur um gripinn:

„Á berinu er lítið Ísland, rétt eins og það sé hnötturinn eða jörðin. Þetta er því leikur að hlutföllum með smá fílósófísku ívafi. Eitt af hlutverkum fjölmiðla er einmitt að benda á og sýna hlutina í stóru og smáu samhengi.“

Umhverfisráðuneytið óskar Ragnari Axelssyni til hamingju með verðlaunin.

Ljósmynd: Svandís Svavarsdóttir afhendir Ragnari Axelssyni jarðarberið, ljosm. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir.

Birt:
Sept. 16, 2011
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Ragnar Axelsson ljósmyndari fyrsti handhafi fjölmiðlaverðlauna umhverfisráðuneytisins“, Náttúran.is: Sept. 16, 2011 URL: http://natturan.is/d/2011/09/16/ragnar-axelsson-ljosmyndari-fyrsti-handhafi-fjolmi/ [Skoðað:Jan. 24, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: