Al Gore fylgir nú eftir kvikmyndinni An Inconvenient Truth með nýrri margmiðlunarsýningu sem sýnd verður um allan heim á 24 klukkustundum. Þurrkar, flóð, hitabylgjur, skordýraplágur, skógareldar, hækkun sjávar – við sjáum raunverulegar afleiðingar loftslagsbreytinga á hverjum degi. Norræna Húsið og Garðarshólmur, samstarfsaðili Stofnunar Sæmundar fróða og Háskóla Íslands sjá um frumsýningu sýningarinnar á Íslandi.

Al Gore hafði samband við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta lýðveldisins, til að fá Ísland til þess að taka þátt í þessu verkefni og úthlutaði forsetinn verkefninu til Garðarshólms og Norræna Hússins. Sýningin fer fram í Norræna húsinu og í húsi Garðarshólms á Húsavík 15. Sept kl. 19.00 en er einnig send beint út frá vef verkefnisins www.climaterealityproject.org.

Norræna húsið opnar kl. 18.30 þar sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson nýráðinn framkvæmdastjóri Landverndar tekur á móti fólki. Sýnt verður beint frá fyrirlestri á Húsavík og umræðum sérfræðinga um hvernig málið snýr að Íslandi. Almennar umræður verða svo í lokin. Dagskrá lýkur kl. 20:30.

Á Húsavík opnar húsið kl. 18:00 og verða léttar veitingar á boðstólum í boði Gamla Bauks. Dagskráin hefst svo kl. 19:00 þegar Embla Eir Oddsdóttir, MA, verkefnisstjóri hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar býður gesti velkomna áður en Sigurður Eyberg, MS, verkefnisstjóri Garðarshólms flytur íslenska útgáfu af sýningu Gore’s. Viðburðinum lýkur með pallborðsumræðum þar sem Brynhildur Davíðsdóttir, PhD, dósent við Háskóla Íslands, Halldór Björnsson, PhD, veðurfræðingur og Þröstur Eysteinsson, PhD, sviðsstjóri þjóðskóganna sitja fyrir svörum gesta. Dagskrá lýkur kl. 20:30

Nánar um verkefnið.
24 Hours of Reality hefst í Mexico City og heldur svo sem leið liggur í vestur í kringum hnattkringluna og sýnir í beinni útsendingu svipmyndir af áhrifum breytinga á loftslagi með sérstökum áherslum heimamanna allt frá Kotzebue til London, frá Jakarta til New York – og til Húsavíkur. Allir viðburðirnir verða kvikmyndaðir og sýndir beint á netinu en einn viðburður fer fram í hverju tímabelti klukkan 19:00 að staðartíma og mun Al Gore sjálfur flytja síðasta fyrirlesturinn í New York.

Með því að beina kastljósinu að breytingum á loftslagi í heilan sólarhring er ætlunin að búa til hnattræna hreyfingu og hvetja til aðgerða til lausna á vandanum hina 364 daga ársins. Á hverjum stað fyrir sig mun athyglinni beint að verkefnum og aðgerðum á vegum innlendra stofnanna og félagasamtaka og boðið upp á upplýsingar og tækifæri fyrir fólk að taka þátt í því sem er að gerast í þeirra eigin samfélagi. Þessar samræður um allan heim munu vonandi leiða til aðgerða sem leysa vandann sem breytingar á loftslagi eru.

Sjá kynningarmyndband á YouTube, smella hér.

Birt:
Sept. 13, 2011
Höfundur:
Norræna húsið
Uppruni:
Norræna húsið
Tilvitnun:
Norræna húsið „24 klukkustundir af raunveruleika 15. sept kl. 19:00“, Náttúran.is: Sept. 13, 2011 URL: http://natturan.is/d/2011/09/13/24-klukkustundir-af-raunveruleika-15-sept-kl-1900/ [Skoðað:March 20, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: